Samninganefndir og sveitarstjórar sveitafélaga funda nú á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) í tengslum við innanhússtillögu Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara í kennaradeilunni. Kennarar hafa þegar samþykkt tillöguna en SÍS bað um frest og var hann veittur til hádegis í dag.
Ástráður segir að innanhússtillagan sem nú er til umræðu sé byggð á grunni þeirrar vopnahléstillögu sem lögð var fram í nóvember upphaflega.
Líkt og fram hefur komið snýst ágreiningur deiluaðila nú ekki síst um uppsagnarákvæði í samningnum.
„Hlutföllin í blöndunni ef miðað er við fyrri tillögur breytast þegar ný tillaga kemur fram. Það eru því engar stórar breytingar frá fyrri tillögu,“ segir Ástráður.
Varðandi uppsagnarákvæðið í samningi segir Ástráður að vinna hafi beinst að því að ramma það sem best inn áður en þessi nýja tillaga var lögð fram.
„Það er þá þannig framsett að reynt sé að ramma uppsagnarákvæðið inn eins og hægt er og setja inn skilyrði sem eiga að draga úr hættunni á því að aðilar detti út úr ferlinu. Djöfullinn liggur í smáatriðunum, eins og venjulega,“ segir Ástráður.