Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir það gríðarleg vonbrigði að innanhússtillögu Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara í kjaradeilu kennara hafi verið hafnað.
Hann segir að útganga kennara úr skólum víða um land sé alls óskyld KÍ. Þó að hann hvetji ekki til útgöngu telur hann skiljanlega í ljósi þess áfalls sem höfnun tillögu sáttasemjara ber með sér.
Magnús var að koma af stöðufundi með ríkissáttasemjara þegar mbl.is náði tali af honum.
„Þetta eru gríðarleg vonbrigði sem eru tvíþætt. Annars vegar hafna menn því sem samþykkt var í janúar og að öðru leyti telur ríkið sig ekki þurfa að svara tillögunni,“ segir Magnús Þór.
Hann telur afstöðu ríkisins vera til marks um köld skilaboð til þeirra fimm framhaldsskóla sem eru í verkfalli núna.
Að sögn hans var uppsagnarákvæðið sem SÍS er sagt hafa hafnað nú einnig í tillögu tvö sem ríki og sveitarfélög samþykktu í janúar.
„Það er heldur þannig að þessi nýja tillaga hafi styrkt stöðu launagreiðenda eilítið,“ segir Magnús.
„Hvað okkur varðar þá höfum við samþykkt tillöguna og boltinn er því hjá gagnaðilanum og við bíðum bara til að sjá hvað gerist.“
Magnús Þór segist hafa frétt af útgöngu kennara eftir að af þeim varð.
„Þetta kemur mér ekki á óvart því það er algjört virðingarleysi hjá SÍS að fá frestun í gær en svara svo með þessum hætti í dag. En annars veit ég ekkert um þetta og við vorum að fá fréttir af þessu í hádeginu,“ segir Magnús Þór.
„Við erum ekki aðilar að útgöngunni og ég veit ekkert hvað er að baki en við fengum bara þau skilaboð að fólk hafi fengið áfall. Ég get ekki hvatt fólk til að brjóta á vinnuskyldu en þetta eru kennarar sem hafa fengið þau skýru skilaboð að þau verði skilin eftir úti í horni.“