Skýr skilaboð frá bæjarstjórum

Magnús Þór Jónsson formaður KÍ segir markmið sambandsins að kennarar …
Magnús Þór Jónsson formaður KÍ segir markmið sambandsins að kennarar séu jafnsettir öðrum sérfræðingum. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

„Við fréttum af því fyrir klukkutíma síðan að fólk vildi hittast hér til að heyra hvort ný borgarstjórn ætlaði sér að ræða stöðuna í deilunni,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, en kennarar gengu út af vinnustöðum sínum í hádeginu í dag eftir að samninganefndir ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga höfnuðu innanhússtillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilum kennara.

Segir Magnús kennara hafa drifið að ráðhúsinu til að kanna hvort ný borgarstjórn „eða nýr borgarstjóri og nýr meirihluti eru tilbúin að ræða þá stöðu sem er uppi í kjaradeilu kennara. Við erum bara forvitin um hvort það verður.

Er eitthvað hægt að gera ef ekki er hægt að semja heildstætt við alla kennara, er þá hægt að semja sér við Reykjavíkurborg?

„Við vitum ekkert um það, það er augljóst mál að launanefnd sveitarfélaga hefur umboð, en það umboð getur hvert sveitarfélag kallað til baka og Reykjavíkurborg er á þeim stað að þeir semja við eiginlega öll önnur stéttarfélög sér, það er eiginlega bara Kennarasambandið sem er með samning bara við sérsamböndin og Reykjavíkurborg saman,“ svarar Magnús.

Ef sveitarfélögin eru ósátt við störf launanefndar...

Markmiðin séu þau að kennarar séu jafnsettir öðrum sérfræðingum og það verði bara að koma í ljós hvort einhver sveitarfélög hafi kjark til að kljúfa sig út úr þeirri stöðu sem komin sé upp.

Aðspurður kveður hann það hafa komið á óvart að sveitarfélögin hafi hafnað innanhússtillögu sáttasemjara, „við töldum að beiðni þeirra um frestun gær væri merki um að þau myndu snúa, við reyndar höfðum heyrt að sú staða væri í sambandinu að þar væri meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ósammála því að semja við kennara á þeim nótum sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna eftir. Það verða þeir bara að svara fyrir sem voru þarna,“ segir Magnús.

Spurður út í hvort það sé ósk Kennarasambandsins að sum sveitarfélaganna dragi samningsumboð launanefndar sveitarfélaga til baka neitar formaðurinn.

„Málið er bara það að við höfum fengið mjög skýr skilaboð, til dæmis frá mörgum bæjarstjórum, um að þeir telji kominn tíma til að leiðrétta laun kennara. Þá er einn möguleikinn sá að semja við Kennarasambandið án aðkomu launanefndar og það er hvert sveitarfélag sem tekur ábyrgð á því. Launanefnd sveitarfélaga starfar í umboði sveitarfélaganna þannig að ef sveitarfélögin eru ósátt við störf launanefndar geta þau reynt að breyta henni eða valið að ganga til samninga sjálf,“ segir Magnús Þór Jónsson að lokum af kennaradeilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka