SMS í alla síma í Grindavík og Svartsengi

Lögregla mun í dag senda skilaboð í alla síma í …
Lögregla mun í dag senda skilaboð í alla síma í Grindavík og Svartsengi þar sem varað er við aukinni virkni eldstöðvar svæðisins og fólk varað við að vera þar á ferli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan mun í dag senda SMS-skilaboð í alla farsíma í Grindavík og Svartsengi, þar sem varað er við því að vera á svæðinu. Skilaboðin eru á ensku og er ætlunin að reyna að ná til erlendra ferðamanna.

Frá þessu greinir Neyðarlínan á Facebook-síðu sinni og bætir því við að í skilaboðunum komi fram að Grindavík sé eldgosasvæði. Aukin virkni hafi mælst á svæðinu og möguleiki sé á eldgosi.

„Fólk er beðið um að búa sig undir rýmingu og að fylgjast með frekari upplýsingum á vefsíðunni safetravel.is,“ segir svo í tilkynningunni.

Áhætta að nóttu sem degi

Einnig er greint frá því að lögreglan segi í tilkynningu að gera megi ráð fyrir að sendingarnar leki út fyrir skilgreint hættusvæði. Fyrirkomulagið verði endurskoðað að viku liðinni, dragi ekki áður til tíðinda innan hættusvæðis.

„Þá er tekið fram í tilkynningunni að í Grindavík og Svartsengi sé há áhætta, að nóttu sem degi. Á gossvæði sé áhættan óásættanleg fyrir alla og mælt gegn því að fólk fari þangað,“ segir að lokum í tilkynningu Neyðarlínunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka