Fyrsta úthlutun úr nýjum afrekssjóði í skák liggur fyrir en alls hljóta fimmtán skákmenn styrki í ár.
Auglýst var eftir umsóknum í lok síðasta árs og bárust alls nítján umsóknir frá átján skákmönnum, þar af tíu í flokkinn efnilegir skákmenn og níu í flokkinn afreksskákmenn.
Við mat á umsóknum efnilegra skákmanna var tillit tekið til stiga, árangurs og virkni síðasta árs og áætlana um virkni fyrir árið í ár.
Við mat á umsóknum afreksskákmanna var tillit tekið til þess hverjir njóta forgangs samkvæmt nýjum lögum um skák. Litið var einnig til stöðu á heimslista, virkni á síðasta ári með tilliti til fjölda tefldra kappskáka og áætlana um virkni í ár.
Mánaðarlegir styrkir í ár eru 490.000 krónur til afreksskákmanna og 225.000 krónur til efnilegra skákmanna.
Um verktakagreiðslur er að ræða og nær úthlutunin yfir tímabilið 1. febrúar – 31. desember 2025.
Þeir sem hljóta styrki í ellefu mánuði eru Guðmundur Kjartansson, Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steinn Steingrímsson, Lenka Ptácníková og Vignir Vatnar Stefánsson.
Bragi Þorfinnsson hlýtur styrk í níu mánuði.
Hilmir Freyr Heimisson hlýtur styrk í þrjá mánuði og það gera einnig þeir Bárður Örn Birkisson og Björn Hólm Birkisson sem efnilegir skákmenn.
Alieksandr Hafthorovich Domalchuk-Jonasson og Dagur Ragnarsson hljóta styrki í tvo mánuði og gera það einnig þeir Adam Omarsson, Benedikt Briem og Gunnar Erik Guðmundsson, sem efnilegir skákmenn.
Hlýtur þá Birkir Ísak Jóhannsson styrk sem efnilegur skákmaður í einn mánuð.