„Við erum búin að benda á það í mörg ár að það stefni í þetta. Viðhaldið er bara verulega svelt. Ekki bara hjá okkur heldur bara Vegagerðinni í heild sinni,“ segir Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri vestursvæðis hjá Vegagerðinni, um ástand vega á Vesturlandi.
Hann segir ástandið sérstaklega slæmt á Vesturlandi þar sem finna megi marga 30-40 ára gamla vegi sem séu orðnir signir og með ónýtt burðarlag. Þarfnist sumir þeirra lagfæringar á kílómetralöngum köflum. Bikblæðingar hafa verið í umræðunni undanfarið og þá sérstaklega bikblæðingar á Vesturlandi.
„Við höfum ekki einu sinni verið að sinna lágmarksviðhaldi að okkar mati síðustu árin,“ segir svæðisstjórinn og ítrekar að það sé einfaldlega ekki nógu mikið fjármagn til staðar.
Bendir hann á að í raun ætti að yfirleggja í kringum 150 kílómetra á ári til þess að viðhalda eðlilegu árferði á vegunum en að starfsemin nái aðeins einum þriðja af því. Þá eru ekki teknir með inn í myndina allir þeir ónýtu og brotnu vegir sem einnig þarf að sinna.
Hann bendir á nýja skýrslu Samtaka iðnaðarins um ástand og framtíðarhorfur helstu innviða á Íslandi en þar kemur einmitt fram að uppsöfnuð viðhaldsskuld í vegakerfinu sé um 265-290 milljarðar króna.
Aðspurður upplýsir Pálmi að starfsmenn Vegagerðarinnar á Vesturlandi séu í raun að vinna með stöðugar skammtímalausnir til þess að halda vegunum færum.
„Við erum að klæða og bletta t.d. yfir vegi sem við ættum að vera bara löngu búnir að fræsa upp og endurgera burðarlagið. Þá ertu kannski að klæða yfir veg sem þú þarft svo aftur 1-3 ár að klæða aftur af því hann er að brotna niður. Ef þú værir með eðlilegan uppbyggðan veg og ekki þessa miklu umferð þá ætti klæðningin að endast í allavega um tíu ár. Það er þetta eðlilega viðhald.“
Bikblæðingar hafa verið í umræðunni undanfarið og þá sérstaklega bikblæðingar á Vesturlandi og ástand vega þar. Pálmi segir alltaf hafa verið aðeins um blæðingar en að borið hafi vissulega meira á þeim í ár en áður.
Nefnir hann að frost hafi verið í langan tíma en svo fari að hlýna og sé þá vatn fast í efra lagi veganna. Einnig geti það gerst að mikil úrkoma bætist svo við.
Þá nefnir hann einnig að Vegagerðin hafi farið í átaksverkefni í fyrra í Dölunum á Vesturlandi og í Reykhólasveit eftir að vegirnir þar „hrundu“ í fyrravetur. Á þeim svæðum sé að finna sandblöndu af veiku burðarlagi með mikið af nýjum yfirlögnum.
Hann segir erfitt að greina hvar nákvæmlega blæðingarnar byrja.
„En t.d. úti á Snæfellsnesi eru auðvitað bara kaflar sem eru niðurbrotnir sem að var verið að bletta mikið í fyrra og þetta virðist byrja á núna. [Þetta er] kafli sem undir eðlilegum kringumstæðum við ættum að vera búnir að fræsa og styrkja aftur. Þá væri hann kannski með eðlilega klæðingu undir.“
Aðspurður segir Pálmi það vera stóru myndina að veitt yrði meira fjármagn og að það fjármagn myndi ná til lengri tíma.
„Það er eitt að fara í eitthvað átak og bjarga einhverjum vegaköflum núna í sumar. En það þarf meira fjármagn til lengri tíma til þess að ná almennilega í skottið á okkur,“ segir Pálmi og bendir á að á Vesturlandi sé Vegagerðin með samanlagt 43-45 kílómetra vegkafla sem þyrftu lagfæringu samstundis.
„Það eru svona vegir sem eru að fara sömu leið og gerðist í Dölunum í fyrra.“
Nefnir Pálmi að lagfæringa sé þörf á Barðastrandavegi við Patreksfjörð þar sem tæpur sex kílómetra kafli á veginum sé að brotna niður.
Einnig segir hann Stykkishólmsveg vera hruninn og að þar sé verið að fylla í holur á hverjum degi til þess að halda veginum færum.
Þá má einnig finna miklar skemmdir á vegkafla við Grundarfjörð, út á Snæfellsnesi, í dölunum, Svínadal og við Gröf í Miðdölum svo eitthvað sé nefnt.
„Það eru alveg næg verkefni.“