Ákvörðun ríkisstjórnarinnar vonbrigði

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir það vera vonbrigði að fjármálaráðherra hafi fallið frá áformum sínum um að breyta tollflokkun erlendra mjólkurvara. 

Þetta kemur fram í færslu hans á facebook. 

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, ætlaði að breyta tollflokkun pitsaosts með viðbættri jurtaolíu. Íslenskir dómstólar hafa úrskurðað um að osturinn eigi að falla undir 4. kafla tollalaga sem ber 30% toll en Daði vildi færa hann undir 21. kafla tollalaga.

Bændur höfðu sagt að breytingin myndi valda stórauknum innflutningi og þar með myndu íslenskir bændur verða af hundruðum milljóna króna.

Vandar síðustu ríkisstjórn ekki kveðjurnar

„Það eru nú ákveðin vonbrigði að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta þessu máli. Atvinnuvegaráðherrann boðar hins vegar „frekari skoðun og samráð við hagaðila“, sem er út af fyrir sig nýjung vegna þess að fyrri ríkisstjórn keyrði breytingar á tollflokkun vörunnar, sem um ræðir, í gegn með afskaplega lítilli og lélegri skoðun og án samráðs við nokkurn mann nema Mjólkursamsöluna og Bændasamtökin,“ skrifar Ólafur á facebook.

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra tilkynnti á facebook í gær að hún hefði átt í samræðum við bændur og Daða að undanförnu. Í kjölfarið hafi Daði ákveðið að falla frá áformunum. 

Hann heldur því fram að ef skoðun stjórnvalda verði raunverulega hlutlæg og fagleg þá hafi hann engar áhyggjur af niðurstöðunni.

„Hún hlýtur að verða sú að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands verði virtar og milliríkjaviðskipti ekki sett í uppnám með því að fikta í tollskránni,“ skrifar Ólafur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert