Andlát: Hilmar Lúthersson

Hilmar Lúthersson, einn stofnenda Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla, er látinn, 86 …
Hilmar Lúthersson, einn stofnenda Bifhjólasamtaka lýðveldisins, Snigla, er látinn, 86 ára aldri. Hér er hann í bílskúrnum sínum, sem hann varði löngum stundum í stúss kringum mótorhjólin. Ljósmynd/Þröstur Ingólfur Víðisson

Hilmar Fjeldsted Lúthersson, pípulagningameistari og mótor­hjólamaður, lést að heimili sínu 20. febrúar síðastliðinn, 86 ára að aldri.

Hilmar var fæddur 26. ágúst 1938 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Lúther Salómonsson og Sveinsína Oddsdóttir. Systkini Hilmars voru Sverrir (samfeðra), Sigríður, Jóhann og Reynir.

Hilmar bjó í Kópavogi frá fjögurra ára aldri en fluttist á Selfoss árið 2004 og síðan til Hafnarfjarðar 2015. Hann kvæntist eftirlifandi konu sinni, Guðmundu Kolbrúnu Guðmundsdóttur, árið 1963. Þau bjuggu í Lundarbrekku í Kópavogi og vann Hilmar við pípulagnir. Þau fluttu um 1980 að Hlíðarvegi 5a. Þar var góður bílskúr og fór Hilmar að rækta mótorhjólabakteríuna.

Einn stofnenda Sniglanna

Hilmar var einn af stofn­félögum Bifhjólasamtaka Lýðveldisins, Snigla. Við stofnun samtakanna árið 1984 var hann nokkru eldri og reyndari en flestir hinna. Hann naut óskoraðrar virðingar innan hópsins og var úthlutað Sniglanúmerinu #1 í heiðursskyni. Í þeim hópi var hann ævinlega nefndur „Old Timer“ og smám saman varð hann einfaldlega „Tæm­erinn“.

Eftir því sem árin færðust yfir varð Hilmar ötulli við að gera upp gömul mótorhjól. Hann varð ótrúlega laginn við þá iðju og naskur að finna eða smíða varahluti sem flestir höfðu talið alveg ófáanlega. Eftir hann liggja fjölmörg listilega vel uppgerð mótorhjól af öllum stærðum og gerðum sem hætt er við að ella hefðu farið fyrir lítið.

Börn þeirra Hilmars og Guðmundu eru Auður Sólveig, Atli (lést 1998), Sveinn Fjeldsted og Hrafnhildur Fjeldsted.

Hilmar Lúthersson í bílskúrnum sínum í Kópavogi, þar sem hann …
Hilmar Lúthersson í bílskúrnum sínum í Kópavogi, þar sem hann gerði upp og lagfærði mörg mótorhjólin gegnum tíðina. Ljósmynd/Þröstur Ingólfur Víðisson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert