„Ég er ekki lunkin í tamílsku“

Elísa Björg Þorsteinsdóttir, þýðandi.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir, þýðandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Í þetta skipti, og al­mennt og yfir höfuð, eru frá­bær­ir þýðend­ur til­nefnd­ir,“ seg­ir Elísa Björg Þor­steins­dótt­ir, hand­hafi Íslensku þýðinga­verðlaun­anna 2025, og bæt­ir við að verðlaun­in hafi þess vegna sann­ar­lega komið henni á óvart.

Hún tók við verðlaun­un­um á Gljúfra­steini nú síðdeg­is, en þau hlaut hún fyr­ir þýðingu sína á skáld­sög­unni Saga af svarti geit eft­ir Perumal Murug­an sem Ang­ú­stúra gef­ur út. 

Elísa hef­ur þris­var áður verið til­nefnd til verðlaun­anna og seg­ist því hafa verið und­ir það búin að mæta prúðbúin á verðlauna­af­hend­ing­una og hlusta á ein­hvern ann­an flytja þakk­arræðu. „Það hefði bara verið frá­bært. Svo, nei, ég átti ekki von á þessu.“

Hún seg­ir það vissu­lega hafa mikla þýðingu fyr­ir sig að hljóta þessi verðlaun. „Það hlýt­ur að þýða að maður hafi gert eitt­hvað rétt um dag­ana. Það er ein­hvers kon­ar staðfest­ing. Þó að ég ef­ist um að nokk­ur þýðandi vinni við þetta til þess að fá verðlaun eða til að verða rík­ur og fræg­ur. Það er ekki boðið upp á það í þessu fagi.“

Klóraði sig fram úr þýðing­unni

Höf­und­ur bók­ar­inn­ar, Perumal Murug­an, fædd­ist árið 1966 á Suður-Indlandi og skrif­ar á móður­máli sínu, tamíl­sku. 

Saga af svartri geit eftir Perumal Murugan.
Saga af svartri geit eft­ir Perumal Murug­an.

„Nú ber þess að geta, og kem­ur kannski ekki á óvart, að ég er ekki mjög lunk­in í tamíl­sku. Ég hef þýtt fleiri bæk­ur sem eru skrifaðar á öðrum mál­um en þeim sem ég kann og þá reyni ég að vera alltaf með að minnsta kosti þrjár aðrar þýðing­ar til að vinna úr. Oft­ast er það enska, þýska og eitt­hvert Norður­landa­mál. En í þessu til­viki fund­um við bók­ina ekki á neinu tungu­máli öðru en ensku, ít­ölsku og kór­esku. Ég er svona álíka góð í kór­esku og tamíl­sku svo að það kom ekki til greina. Ein­hvern tím­ann í fyrnd­inni lærði ég smá ít­ölsku svo að ég vann þessa þýðingu úr ensku og ít­ölsku. Ég klóraði mig fram úr ít­ölsk­unni og lærði hell­ing í henni í leiðinni. Það var eitt af því flókna í sam­bandi við þessa bók, að hafa ekki fleiri tungu­mál til að styðjast við.“

Í um­sögn dóm­nefnd­ar, sem Guðlaug Guðmunds­dótt­ir, Jó­hanna Jak­obs­dótt­ir og Guðrún H. Tul­inius skipuðu, seg­ir meðal ann­ars: „Þýðing­in er á fáguðu og afar vönduðu og blæ­brigðaríku ís­lensku máli. Stíll sög­unn­ar minn­ir á þjóðsög­ur og æv­in­týri, í senn fram­andi og kunn­ug­leg­ur.“

Viðtal við Elísu Björgu birt­ist í heild sinni á menn­ing­arsíðum Morg­un­blaðsins á mánu­dag, 24. fe­brú­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert