„Ég er ekki lunkin í tamílsku“

Elísa Björg Þorsteinsdóttir, þýðandi.
Elísa Björg Þorsteinsdóttir, þýðandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Í þetta skipti, og almennt og yfir höfuð, eru frábærir þýðendur tilnefndir,“ segir Elísa Björg Þorsteinsdóttir, handhafi Íslensku þýðingaverðlaunanna 2025, og bætir við að verðlaunin hafi þess vegna sannarlega komið henni á óvart.

Hún tók við verðlaununum á Gljúfrasteini nú síðdegis, en þau hlaut hún fyrir þýðingu sína á skáldsögunni Saga af svarti geit eftir Perumal Murugan sem Angústúra gefur út. 

Elísa hefur þrisvar áður verið tilnefnd til verðlaunanna og segist því hafa verið undir það búin að mæta prúðbúin á verðlaunaafhendinguna og hlusta á einhvern annan flytja þakkarræðu. „Það hefði bara verið frábært. Svo, nei, ég átti ekki von á þessu.“

Hún segir það vissulega hafa mikla þýðingu fyrir sig að hljóta þessi verðlaun. „Það hlýtur að þýða að maður hafi gert eitthvað rétt um dagana. Það er einhvers konar staðfesting. Þó að ég efist um að nokkur þýðandi vinni við þetta til þess að fá verðlaun eða til að verða ríkur og frægur. Það er ekki boðið upp á það í þessu fagi.“

Klóraði sig fram úr þýðingunni

Höfundur bókarinnar, Perumal Murugan, fæddist árið 1966 á Suður-Indlandi og skrifar á móðurmáli sínu, tamílsku. 

Saga af svartri geit eftir Perumal Murugan.
Saga af svartri geit eftir Perumal Murugan.

„Nú ber þess að geta, og kemur kannski ekki á óvart, að ég er ekki mjög lunkin í tamílsku. Ég hef þýtt fleiri bækur sem eru skrifaðar á öðrum málum en þeim sem ég kann og þá reyni ég að vera alltaf með að minnsta kosti þrjár aðrar þýðingar til að vinna úr. Oftast er það enska, þýska og eitthvert Norðurlandamál. En í þessu tilviki fundum við bókina ekki á neinu tungumáli öðru en ensku, ítölsku og kóresku. Ég er svona álíka góð í kóresku og tamílsku svo að það kom ekki til greina. Einhvern tímann í fyrndinni lærði ég smá ítölsku svo að ég vann þessa þýðingu úr ensku og ítölsku. Ég klóraði mig fram úr ítölskunni og lærði helling í henni í leiðinni. Það var eitt af því flókna í sambandi við þessa bók, að hafa ekki fleiri tungumál til að styðjast við.“

Í umsögn dómnefndar, sem Guðlaug Guðmundsdóttir, Jóhanna Jakobsdóttir og Guðrún H. Tulinius skipuðu, segir meðal annars: „Þýðingin er á fáguðu og afar vönduðu og blæbrigðaríku íslensku máli. Stíll sögunnar minnir á þjóðsögur og ævintýri, í senn framandi og kunnuglegur.“

Viðtal við Elísu Björgu birtist í heild sinni á menningarsíðum Morgunblaðsins á mánudag, 24. febrúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert