Endurgreiðslur yfir sex milljarðar

Hallmark-myndin The Christmas Quest var tekin hér.
Hallmark-myndin The Christmas Quest var tekin hér. mbl.is

Ríflega 850 milljónir króna voru greiddar úr ríkissjóði í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í lok síðasta árs. Þessi upphæð var fengin af fjáraukalögum og bættist við 5,3 milljarða króna sem þegar höfðu verið greiddir út.

Endurgreiðslur námu því rúmum sex milljörðum króna í fyrra sem er met. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu voru ríflega fjórir milljarðar greiddir út vegna framleiðslu á sjónvarpsþáttunum True Detective hér.

Tvær Hallmark-jólamyndir fengu endurgreiðslu

Í nýbirtu yfirliti á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands kemur fram að hæsta endurgreiðslan var vegna Hallmark-jólamyndarinnar Christmas Quest, rúmar 146 milljónir króna. Önnur Hallmark-jólamynd var tekin hér og fékk endurgreiðslu; The Finnish Line, en endurgreiðslur hennar námu um 70 milljónum.

Næst hæsta upphæðin var síðari hluti endurgreiðslu vegna sjónvarpsþáttanna Svörtu sandar, 124 milljónir. Alls námu endurgreiðslur vegna þáttanna því 295 milljónum króna.

Þá voru 115 milljónir greiddar út vegna Hollywood-myndarinnar Greenland: Migration sem tekin var hér og skartar Gerard Butler í aðalhlutverki. Það er fyrri hluti endurgreiðslu þess verkefnis.

Ljósbrot, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, fékk 105 milljónir í endurgreiðslu. Öll framangreind verkefni uppfylltu skilyrði um 35% endurgreiðslu en fram til þessa hafði aðeins True Detective gert það.

Af öðrum verkefnum sem fengu endurgreiðslu má nefna sjónvarpsþættina Útilega sem fengu 54 milljónir og HBO-þættina House of the Dragon, 52 milljónir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert