„Gefur því miður ekki góð fyrirheit“

Hildur hjólar í nýja meirihlutann.
Hildur hjólar í nýja meirihlutann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir að nýja félagshyggjustjórnin sem tekin er við í borginni hafi engin áform um uppbyggingu íbúða fyrir meginþorra borgarbúa. Enn fremur segir hún að það sem fram hafi komið hjá meirihlutanum sé lítið annað en orðagjálfur.

„Því er ekki að neita að fimm flokka vinstri meirihluti er það mynstur sem mér hugnaðist síst. Ástæðurnar birtast glöggt í nýjum málefnasamningi, sem í stuttu máli er ófjármagnað, ókostnaðarmetið og ótímasett orðagjálfur,“ skrifar Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í færslu á facebook.

Í gær tók við nýr meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur skipaður borgarfulltrúum Samfylkingarinnar, Flokks fólksins, Sósíalista, Pírata og Vinstri grænna. 

Eitt mælanlegt markmið í sáttmálanum

„Hugmyndir þeirra í húsnæðismálum snúa eingöngu að uppbyggingu á óhagnaðardrifnu og félagslegu húsnæði - og hjólhýsabyggð. Engin áform um að byggja hér heilbrigðan húsnæðismarkað fyrir meginþorra fólks - sem ekki þarf niðurgreitt húsnæði,“ skrifar Hildur.

Hún segir að eina mælanlega markmið meirihlutasáttmálans séu áform um uppbyggingu 10.000 óhagnaðardrifinna íbúða í Úlfarsárdal í samvinnu við verkalýðsfélögin. 

„En aðspurðar segja þær uppbygginguna geta tekið allt að 40 ár!“

Hefði þurft framkvæmdaglaðan meirihluta

Hún gagnrýnir einnig stefnu meirihlutans í leikskólamálum og samgöngumálum. Í samtali við mbl.is í gær sögðu oddvitar nýs meirihluta að rádeild í rekstri væri mikið áherslumál.

Greiða eigi niður skuldir, hætta ákveðnum verkefnum og finna sóun í kerfinu. Hildur gefur lítið fyrir þau fyrirheit.

„Málefnasamningurinn gefur því miður ekki góð fyrirheit fyrir framhaldið. Borgin okkar hefði þurft kraftmikinn og framkvæmdaglaðan meirihluta - fólk sem er reiðubúið að láta hendur standa fram úr ermum - og lætur ekki kreddur þvælast fyrir skynsemi og raunhæfum lausnum,“ skrifar Hildur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert