Um þrjú hundruð manns sóttu vöfflukaffi Guðrúnar Hafsteinsdóttur, frambjóðanda til formanns Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavík í dag. Hún segir að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að endurheimta traust landsmanna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá framboði Guðrúnar.
„Við þurfum að endurheimta traust og koma á virkara talsambandi á milli okkar í framlínu stjórnmálanna og hins almenna kjósenda á ný. Þannig stækkum við Sjálfstæðisflokkinn á nýjan leik og því betur sem Sjálfstæðisflokknum vegnar, því betur vegnar þjóðinni,“ er haft eftir Guðrúnu.
Fram kemur að Elliði Vignisson, bæjarstjóri Í Ölfusi, og Vigdís Häsler, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bændasamtakanna og aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar, hafi ávarpað fundinn til stuðnings Guðrúnar.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram næstu helgi og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hefur einnig gefið kost á sér í embætti formanns. Sjálf hélt hún viðburð á Vinnustofu Kjarvals í gærkvöldi sem á annað hundrað manns sóttu.
Báðir frambjóðendur eru á ferð og flugi en um 2.000 sjálfstæðismenn eru með landsfundarsæti.