Hættu við af ótta við afleiðingarnar

Ísland er ekki paradís fyrir alla, segja ritstjórar bókarinnar.
Ísland er ekki paradís fyrir alla, segja ritstjórar bókarinnar. mbl.is

Tvær konur, sem upphaflega ætluðu að segja sögu sína í bókinni Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, gengu úr skaftinu meðan á ferlinu stóð. Drógu sig raunar ekki í hlé fyrr en búið var að taka og skrifa viðtölin, af ótta við afleiðingarnar.

„Flest höfum við þá sýn að Ísland sé jafnréttisparadís. En þegar betur er skoðað kemur í ljós að landið er ekki paradís fyrir alla. Það á til dæmis við um konurnar tvær sem drógu sig út úr verkefninu. Þær voru í aðstæðum sem einkenndust af átökum og ofbeldi og hættu við af ótta við afleiðingarnar eftir að bókin kæmi út,“ segir Chanel Björk Sturludóttir, einn þriggja ritstjóra bókarinnnar, sem kom út á dögunum.

„Sem undirstrikar hvernig þær eru jaðarsettar,“ bætir Elinóra Guðmundsdóttir, sem einnig ritstýrir bókinni, við.

Þær eru sammála um að mikilvægt sé að horfa á það sem ekki sést og fyrir vikið sé bókin ekkert síður fyrir þessar tvær konur en hinar sem eru á síðum hennar.

– Reynduð þið eitthvað að tala þær til?

„Önnur talaði um þessar áhyggjur fyrirfram,“ segir Elinóra, „en niðurstaðan var sú að byrja samt og sjá hvert það leiddi okkur. En að sjálfsögðu kom aldrei til greina að birta neitt gegn vilja kvennanna og ógna þannig jafnvel öryggi þeirra. Við vildum styðja þær en það getur verið erfitt þegar maður býr ekki sjálfur að svona lífsreynslu.“

Chanel Björk tekur fram að allar konurnar, ekki bara þessar tvær, hafi ráðið ferðinni þegar frásögn þeirra var annars vegar en 33 konur segja sögu sína í bókinni. 

Að brúa bilið milli samfélagshópa

- Hvert er markmiðið með bókinni?

„Markmiðið er að brúa bilið milli samfélagshópa sem eru því miður dálítið aðskildir,“ segir Elinóra og Chanel Björk bætir við: „Okkur fannst mikilvægt að sýna mennskuna og sýna hvað við eigum öll ótrúlega margt sameiginlegt þrátt fyrir ólíkan menningarbakgrunn. Allir eiga að geta tengt við þessar sögur, innfæddir og aðfluttir Íslendingar.“

Chanel Björk Sturludóttir, Elínóra Guðmundsdóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir.
Chanel Björk Sturludóttir, Elínóra Guðmundsdóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir. Ljósmynd/Kaja Sigvalda


Eigandi erlenda móður hefur Chanel Björk reynt þetta á eigin skinni. „Frá mínum bæjardyrum séð snýst þetta meira um að hjálpa íslensku samfélagi að aðlagast innflytjendum en öfugt,“ segir hún og Elinóra bætir við að brýnt sé að auka þekkingu og umburðarlyndi.

„Við eigum konum af erlendum uppruna mikið að þakka,“ segir Chanel Björk. „Hvort sem það er konan sem hugsar um barnið þitt, lögfræðingurinn sem þú leitar til, konan sem þrífur skrifstofuna þína eða sérfræðingurinn hjá tæknifyrirtækinu. Þessar konur spanna mjög breitt svið.“

Þriðji ritstjórinn, Elínborg Kolbeinsdóttir, grípur boltann á lofti og segir samtökin Hennar rödd, sem þær Chanel Björk starfrækja, leggja áherslu á að sýna fyrirmyndir. „Og þessi bók er full af þeim.“

Ítarlega er rætt við Chanel Björk, Elínborgu og Elinóru í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert