Þann 5. október 2021 lagði eiginkona Páls Steingrímssonar staðreyndir byrlunarmálsins á borðið. Hún viðurkenndi undanbragðalaust að hún hefði laumað svefnlyfi í bjór sem hann síðan drakk. Og hún fullyrti einnig að hún hefði afhent fjölmiðlamönnum síma hans meðan hann lá milli heims og helju. Hún hélt hins vegar trúnað við viðtakendurna. Gaf ekki upp hverjir hefðu komið að máli.
Dagana og vikurnar á undan hafði hún átt í margháttuðum samskiptum við Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks, rétt eins og rakið var í fréttaskýringu á þessum vettvangi síðastliðinn þriðjudag. Ræddu þær saman í síma, skiptust á sms-skilaboðum, tölvupóstar gengu milli þeirra og þær hittust á kaffihúsi. Þóra hafði fengið konuna til þess að afhenda sér sinn eigin síma í því skyni að koma honum í hendur huldumanni sem átti að yfirfara rafræn spor sem þar gætu leynst. Þetta gerðu þær í aðdraganda fyrstu yfirheyrslu lögreglunnar á konunni.
Á þessum tíma var lögreglan í algjöru myrkri um þessi margháttuðu samskipti konunnar við Þóru Arnórsdóttur. Og ekkert var vitað um umboðið sem hún veitti Láru V. Júlíusdóttur lögmanni sínum til þess að afhenda Aðalsteini Kjartanssyni, blaðamanni á Stundinni, og fyrrnefndri Þóru símkort sín „ásamt öðru efni sem þú kannt að hafa frá mér“, eins og hún orðaði það í tölvupósti, tveimur sólarhringum fyrir skýrslutöku lögreglu.
Smátt og smátt skýrðist þó málið fyrir lögreglu, meðal annars þegar hún komst á snoðir um leynisímanúmerið sem Þóra hafði komið Ríkisútvarpinu upp í apríl, nokkrum dögum áður en byrlunin á Akureyri átti sér stað. Það tók reyndar lögregluna nokkurn tíma að svæla upplýsingar út úr Efstaleiti, enda var Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri og fyrrverandi lögreglustjóri í Reykjavík, seinn til svars þegar grennslast var fyrir um tilurð símanúmersins og hver hefði haft umráð yfir því. Í fyrrnefndri fréttaskýringu frá 18. febrúar eru líkur leiddar að því að þar hafi Þóra Arnórsdóttir verið við stjórnvölinn.
Á meðan lögreglan eltist við gögnin á RÚV og leitaði frekari upplýsinga um mögulega aðkomu starfsmanna stofnunarinnar að því að brjótast inn í farsíma Páls meðan hann lá milli heims og helju á þjóðarsjúkrahúsinu, var eiginkona hans þáverandi aftur kölluð til yfirheyrslu. Má af skýrslu sem rituð var í tengslum við hana ráða að hún hafi verið mjög ósamvinnuþýð og lítið upp úr henni að fá.
En það átti eftir að breytast, ekki síst eftir að aðilar máls áttuðu sig á að lögreglan var komin á sporið með Ríkisútvarpið. Staðsetning símans samkvæmt Samsung-aðgangi Páls, daginn sem hann komst til sjálfs sín á sjúkrahúsinu, var eftir allt saman veruleikanum samkvæmt. Hann hafði ratað í höfuðstöðvar RÚV.
Það staðfesti eiginkona Páls í yfirheyrslu hjá lögreglu 12. júlí 2024. Þar kom nýtt nafn fram í dagsljósið sem enginn hafði áður velt upp í sambandi við það. Hún sagðist hafa hitt mann að nafni Arnar Þórisson. En hann er framleiðandi Kveiks, fréttaskýringarþáttarins sem Þóra fór fyrir og Aðalsteinn Kjartansson hafði starfað við þar til í lok apríl 2021, örfáum dögum áður en Páli var byrlað. Þá flutti hann sig yfir á Heimildina, þar sem hann flutti fréttir byggðar á gögnum úr síma Páls, þremur vikum síðar.
Lýsti eiginkonan Arnari þannig að hann hefði verið með alskegg og gleraugu. En til þess að taka af allan vafa bað hún lögreglu um að sýna sér mynd af manninum. Það var gert og sagði hún það staðfesta mál sitt endanlega. Arnar er ekki sviplaus maður og ósennilegt að kynni við hann örlagadagana í maí 2021 hafi runnið henni úr minni.
Í yfirheyrslunni lýsir hún því að Arnar hafi hún hitt fyrir í Efstaleiti og að hann hafi svo kallað Þóru Arnórsdóttur inn í herbergi sem henni hafði verið vísað inn í. Þau hafi svo farið með símann inn í annað herbergi þar sem annar maður hafi tekið við tækinu. Var henni svo sagt að koma degi síðar til þess að vitja símans. Eiginkonan bar ekki kennsl á endanlegan viðtakanda símans. Kom hún degi síðar og vitjaði tækisins. Enda ekki seinna vænna. Páll var að rakna úr rotinu. Þar hitti hún að eigin sögn Þóru Arnórsdóttur að nýju.
Í skýrslutökunni segir svo: „X sagði að það hafi tekið þrjú ár að ná þessum upplýsingum upp úr henni, með offorsi, ofsóknum, andlegu ofbeldi og ógeði.“ Er ekki vikið frekari orðum að þeim fullyrðingum hennar.
Sérstaka athygli vekur að þótt síminn hafi fengið þessa sérstöku meðferð af hálfu ríkisstarfsmannanna í Efstaleiti, rötuðu gögnin sem þar voru „haldlögð“ ekki í fréttir frá þeirra eigin hendi. Þær birtust í miðlum Kjarnans og Stundarinnar. Aðalsteinn fyrrnefndur hafði augljós tengsl við RÚV en þau voru margháttuð önnur. T.a.m. þáði Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans verktakagreiðslur frá RÚV árum saman fyrir fréttainnlegg og kynningu á efnistökum Kjarnans í morgunútvarpi Rásar 2.
Athygli vekur að þegar umfjöllunin hófst á vettvangi miðlanna tveggja föstudaginn 21. maí ákvað Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks að leggja orð í belg. Það gerði hún á Facebook-síðu sinni þegar hún deildi frétt Stundarinnar um hina svokölluðu „skæruliðadeild Samherja“. Það gerði hún með orðunum: „Mér er eiginlega þvert um geð að deila þessu. En það þarf stundum að gera fleira en gott þykir.“
Af hverju var ritstjóranum það „eiginlega“ þvert um geð að deila fréttinni? Og hvað var það sem gert var, sem reyndist fleira en gott þykir? Við því hafa ekki fengist viðhlítandi skýringar enda bera skýrslur lögreglu úr yfirheyrslum yfir Þóru með sér að þar var ekkert ofsagt.
Frá því að eiginkona Páls lýsti atburðarásinni í Efstaleiti 1 í yfirheyrslunni í júlí 2024 liðu tæpir tveir mánuðir uns Arnar Þórisson, maðurinn sem hún hafði bent á og staðfest á mynd að hefði veitt símanum viðtöku, fékk stöðu sakbornings í málinu og var hann kallaður til yfirheyrslu að morgni 11. september.
Varði yfirheyrslan skamma stund eða 19 mínútur. Þar var enda fátt um svör. Þó vekur athygli að Arnar fullyrti þar að hann hefði einungis haft spurnir af málinu í fjölmiðlum, að hann hefði enga aðkomu haft að því og þegar kynni hans eða tengsl við eiginkonu Páls voru borin undir hann sagðist hann ekki vita hver hún væri og að hann hefði aldrei hitt hana. Var hann þó spurður ítarlegar út í möguleg tengsl og hvort hann hefði hitt konuna í Efstaleiti í maí 2021, eins og fram hefði komið í vitnisburði hennar.
„Hann sagðist ekki kannast við það. Kaus að tjá sig ekki,“ segir í skýrslu lögreglunnar um viðbrögð framleiðandans.
Það eru örfáir einstaklingar sem gætu borið vitni um það hvort Arnar og eiginkona Páls hafi nokkru sinni hist. Hún að sjálfsögðu og hann, en einnig Þóra Arnórsdóttir og sennilega huldumaðurinn sem konan segir að hafi að lokum veitt síma Páls viðtöku í Efstaleiti. Vandinn er sá að Arnar, Þóra og aðrir sem tengjast málinu þegja þunnu hljóði. Hefur það verið gert með vísan til fjölmiðlalaga nr. 38/2011 og einkum 25. greinar þeirra sem fjallar um vernd heimildarmanna.
Þar segir að fjölmiðlamenn megi ekki „upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða öðru efni, hvort sem það hefur birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar“.
Veikleikinn í þeirri vörn er hins vegar sá að heimildarmaðurinn í þessu tilviki hefur greint frá aðkomu sinni og afhendingu símtækis Páls, þar sem gögnin umræddu var að finna. Rannsókn lögreglu laut auk þess ekki einvörðungu að gögnum sem notast var við til fréttaskrifa, heldur einnig veittu aðgengi að mjög persónulegu efni, myndum og myndböndum, sem enginn efast um að hafi hvorki átt erindi í hendur fjölmiðlamanna né annarra.
Hafi það verið ásetningur Arnars Þórissonar að verja heimildarmann sinn eða RÚV í yfirheyrslunni í september 2024 hefði hann getað borið við þörfinni á að vernda hann. En með því að fullyrða að hann hafi aldrei hitt hana, er hann annaðhvort að gera sjálfan sig, eða heimildarmanninn sem stigið hefur fram, að ómerkingi.
Þótt ekki sé það skrifað í lögin hlýtur sú krafa að hvíla á fjölmiðlafólki að það geri heimildarmönnum sínum ekki slíka ósvinnu. Þótt ekki sé dregið úr mikilvægi þess að standa vörð um heimildarmenn sem þess óska. Vandinn hér er sá að engum slíkum er til að dreifa. Farsímagögn sem lögregla aflaði, meðal annars úr sendum símafyrirtækja, auk þeirra skrásettu samskipta sem fjallað hefur verið um í fyrri fréttaskýringum á þessum vettvangi, staðfesta að eiginkona Páls átti í margháttuðum og langvarandi samskiptum við starfsmenn, og fyrrverandi starfsmenn, RÚV þar sem símtæki, fleiri en eitt og fleiri en tvö, símkort og önnur gögn komu við sögu.
Síðasta skýrslutaka lögreglu í málinu var sú sem Arnar Þórisson mætti til. Hin alltumlykjandi þögn allra sakborninga í málinu, að eiginkonu Páls undanskilinni, virðist hafa orðið til þess að lögreglu þraut örendið. Aðeins tveimur vikum eftir yfirheyrsluna á Arnari felldi lögregla málið niður í heild sinni. Það var 26. september 2024.
Lögmaður Páls brást snarlega við í kjölfar niðurstöðunnar og krafðist þess að rannsókn málsins yrði haldið áfram. Bæði hvað varðaði byrlunina sem eiginkonan hafði viðurkennt fyrir lögreglu, en einnig meðferð fjölmiðlamanna á þeim gögnum sem þeir komu höndum yfir úr símanum sem eiginkonan hafði einnig upplýst að hún hefði látið starfsmönnum RÚV í té.
Gerði lögmaður hans sérstaka athugasemd við það að lögregla hefði rannsakað byrlunarhlutann á grundvelli 1. málsgreinar 217. gr. hegningarlaga þar sem fjallað er um minni háttar líkamsárásir. Vill hann meina að byrlun feli í sér alvarlegt inngrip þegar slævandi lyfi sé laumað í drykk fólks án vitundar þess, ekki síst þegar litið sé til þeirra alvarlegu atburða sem áttu sér stað í kjölfar þess.
Sú ákvörðun að fella rannsókn málsins undir þá lagagrein sem varðar minni háttar líkamsárásir en ekki meiri háttar olli því að málið fékk ekki forgangsmeðferð hjá lögreglu. Varð það niðurstaðan í samræmi við almenn fyrirmæli ríkissaksóknara um málsmeðferð.
Þegar málið er skoðað í baksýnisspeglinum virðist lögregla ekki hafa lagt sérstaka áherslu á að upplýsa þennan þátt málsins. Sérstaka athygli vekur að rannsakendur leituðu ekki til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands fyrr en í mars 2023, eða tæpum tveimur árum eftir að byrlunin átti sér stað. Þá var ekki alvarlegur reki gerður að því að fá heillega mynd af því frá eiginkonu Páls hvaða efni það var sem hún setti í drykk hans.
Lögregla hefur viðurkennt að nokkru leyti að hafa dregið lappirnar í rannsókn málsins.
En þá er einnig tekið fram að sakborningar hafi torveldað rannsóknina, þeir hafi verið „ósamvinnuþýðir“ eins og það er orðað. Þá dró Aðalsteinn Kjartansson yfirvöld fyrir dómstóla vegna yfirheyrslna sem hann var kallaður til og var niðurstaðna í því kærð á öllum dómstigum. Gögn málsins sýna einnig að Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var mjög seinn til svars þegar lögregla aflaði svara hjá honum. Sérstaka athygli vekur að hann var aldrei kallaður til skýrslutöku í málinu, jafnvel þótt aldrei hefði fengist botn í það af hverju starfsmenn RÚV skráðu símanúmer, nauðalíkt því sem Páll Steingrímsson hafði til umráða, nokkrum dögum áður en honum var byrlað.
Ríkissaksóknari kallaði eftir rökstuðningi lögreglu fyrir niðurfellingu málsins og barst hann til embættisins í byrjun þessa árs. Ríkissaksóknari staðfesti ákvörðun lögreglu með bréfi 23. janúar síðastliðinn.
Páll Steingrímsson sagði í viðtali á vettvangi Spursmála á mbl.is þann 7. febrúar síðastliðinn að hann gæti illa unað við þessi málalok. Hefur hann skoðað möguleika á því að höfða einkamál gegn RÚV í kjölfar þess að lögregla felldi rannsókn sína niður. Þá telur hann að Alþingi Íslendinga verði að hlutast til um rannsókn á aðkomu Ríkisútvarpsins að þessu máli. Stofnunarinnar sem sögð er starfa í þjóðarþágu.
Þessi fréttaskýring birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 20. febrúar. Áður hefur ítarlega verið fjallað um málið á síðum blaðsins fimmtudaginn 13. febrúar, laugardaginn 15. febrúar og þriðjudaginn 18. febrúar.
Nánar er fjallað um málið á síðum Morgunblaðsins í dag, laugardag, 22. febrúar.