Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og húsnæðis- og félagsmálaráðherra, segir að styrkjamálið svokallaða sé úr sögunni.
Þetta kemur fram í samtali hennar við blaðamann mbl.is á landsfundi Flokks fólksins sem fram fer í dag.
„Þetta var yndislegur fundur, ég meina við hefðum getað haft hann fyrr en nú er hann sem er yndislegt,“ segir Inga í samtali við mbl.is eftir formannsræðu sína á fyrsta landsfundi Flokks fólksins.
Aðspurð hvernig staðan er á styrkjamálinu svokallaða segir Inga að það sé að hennar mati „úr sögunni“.
Þá segir hún það ekki hafa bitið á flokkinn. „Við horfum bara áfram“.
Spurð hvað henni finnst um nýjan meirihluta borgarstjórnar segir hún flokksmenn vera ánægðan með hann. „Og við gerum miklar væntingar til hans.“
Inga Sæland hóf formannsræðu sína á því að vitna í það sem samþykkt var á fundinum í dag, að skrá flokkinn sem stjórnmálaflokk hjá Skattinum.
„Málflutningur okkar og þrautseigja allt frá upphafi hefur í vaxandi mæli haft áhrif á umræðuna um börn sem búa við fátækt, um öryrkja og eldri borgara sem hafa verið hunsaðir áratugum saman og ekki fengið sömu kjarabætur og aðrir. Þetta hefur sýnt sig í vaxandi fylgi hreyfingar okkar, eða réttara sagt ekki hreyfingar, nú erum við orðin stjórnmálaflokkur, ekki satt?" sagði hún í ræðu sinni.