„Lögfesta þarf skyldu til íslenskukennslu fyrir börn og fullorðna sem hingað flytja, til samræmis við það sem þekkist á Norðurlöndunum.“ Þetta ályktar Flokkur fólksins í stjórnmálaályktun sinni sem landsfundur flokksins sendir frá sér, en hann var haldinn í dag.
Kemur þetta fram í hinni elleftu af 17 greinum ályktunarinnar þar sem því er enn fremur slegið fram að aðlaga þurfi íslenska löggjöf um alþjóðlega vernd löggjöf annarra norrænna ríkja og efla landamæraeftirlit. Þá þurfi að efla íslenskukennslu innflytjenda til mikilla muna svo koma megi í veg fyrir einangrun þeirra.
Baráttan gegn fátækt og fyrir hagsmunum þeirra sem minnst bera úr býtum kemur hins vegar í fyrsta lið, enda segir þar að sú barátta hafi verið og verði alltaf kjarninn í stefnu Flokks fólksins og leiðarljós við allar stefnumarkandi ákvarðanir.
Flokkurinn telur nauðsyn að stjórn náist á fjármálum ríkisins til að skapa skilyrði fyrir áframhaldandi lækkun vaxta. Þá hyggist hann beita sér fyrir því að upp verði tekið nýtt húsnæðislánakerfi sem tryggi óverðtryggð húsnæðislán á föstum vöxtum til lengri tíma.
Af öðrum stefnumálum sem tæpt er á leggur Flokkur fólksins áherslu á að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld, en til þess þurfi að auka réttindi þeirra, draga úr skerðingum, efla heimaþjónustu og -hjúkrun, tryggja dagdvöl og fjölga og hjúkrunarrýmum. Þá þurfi að tryggja að þjónustuíbúðum fylgi raunveruleg þjónusta með því að samþætta mismunandi þjónustustig er þar komi að.
Kennir ýmissa grasa annarra meðal áhersluefna flokksins, svo sem að hann hyggist beita sér fyrir ábyrgri meðferð á auðlindum þjóðarinnar, styttingu biðlista barna eftir greiningum og meðferð vegna fíknivanda.
Eins vill flokkurinn tryggja jöfn búsetuskilyrði milli landshluta með greiðum aðgangi að opinberri þjónustu, stórefla vegagerð um allt land og endurskoða verklag og aðferðir, efla strandveiðikerfið, jafna leikreglur í fiskveiðikerfinu, auka aðstoð við nemendur með sérþarfir og fjölga kennurum. Auk þess þurfi að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtingu.
Klykkur Flokkur fólksins út með því í ályktun sinni að hann styðji eindregið aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu NATO og muni hér eftir sem hingað til berjast fyrir því að við verðum ávallt þjóð á meðal þjóða.