Krefjast tafarlausra aðgerða

Guðni Valberg arkitekt tók þessa mynd af Bernhöftstorfunni í Reykjavík …
Guðni Valberg arkitekt tók þessa mynd af Bernhöftstorfunni í Reykjavík vorið 2014. Rífa átti Torfuna. Egill Sæbjörnsson listamaður líkir baráttu samtímans fyrir fegurð við baráttuna fyrir friðun Torfunnar. Ljósmynd/Guðni Valberg

Hópur arkitekta, verkfræðinga og listamanna krefst tafarlausra aðgerða til að stöðva hnignun í húsagerðarlist á Íslandi. Jafnframt að meira verði hugað að fegurð bygginga og öðrum lykilþáttum í þágu almannahagsmuna.

„Tilefnið er að margir hafa fengið nóg af ljótum byggingum sem eru farnar að þrengja að fólki og mannlífi, þar með talið í miðborginni. Að okkar mati er þetta byggða umhverfi ómannvænlegt,“ sagði Egill Sæbjörnsson, myndlistarmaður í Berlín, í opnuviðtali við Morgunblaðið síðasta föstudag í tilefni af þessu ákalli.

Egill líkir ákallinu við baráttu hugsjónafólks fyrir friðun Bernhöftstorfunnar í Reykjavík fyrir áratugum síðan (sjá myndir).

Tölvumynd Guðna Valbergs af Stjórnarráðshúsinu ofan við Lækjargötu samkvæmt teikningum …
Tölvumynd Guðna Valbergs af Stjórnarráðshúsinu ofan við Lækjargötu samkvæmt teikningum stjórnarráðsarkitektanna frá 1971. Myndin var birt í bók Guðna og Önnu Drafnar Ágústsdóttur, Reykjavík sem ekki varð. Teikning/Guðni Valberg

Almannahagsmunir ráði för

Ákallið er svohljóðandi:

„Ákall um breytt viðhorf til skipulags og hönnunar byggðar:

Við undirrituð krefjumst tafarlausra aðgerða til að stöðva núverandi þróun borgar og bæja hérlendis, þ.e. skipulagningu og uppbyggingu hverfa og húsa sem fyrst og fremst eru mótuð af hagsmunum fjármagnsins fremur en almannaheill. 

Við hvetjum til þess að borg og bæir verði mótuð með hag og heilbrigði samfélagsins í fyrirrúmi, eigi rætur í menningararfi okkar, að byggðamynstur og húsagerðir hæfi hnattstöðu landsins og skipulag lúti þeirri reglu að fegurð, gæði, fjölbreytni og hagkvæmni verði leiðarljósið sem skapar almenningi best lífsskilyrði.

Við krefjumst að reglugerðir og skipulagslög verði endurskoðuð með það að markmiði að réttur almennings til að lifa í heilsusamlegu og uppbyggilegu umhverfi sé ætíð í öndvegi og tryggt sé að menningarsöguleg verðmæti og staðarandi séu virt,“ segir í ákallinu.

Hægt er að lýsa yfir stuðningi við það á Island.is.

Þjóðþekktir arkitektar

Undir þetta rita Ásta Logadóttir, Egill Sæbjörnsson, Hilmar Þór Björnsson, Hjörleifur Stefánsson, Magnús Skúlason, Margrét Þormar, Ólafur Hjálmarsson, Páll Jakob Líndal, Rafael Pinho og Stefán Thors.

Egill Sæbjörnsson býr og starfar í Berlín.
Egill Sæbjörnsson býr og starfar í Berlín. Ljósmynd/Studio Egill Sæbjörnsson

Hilmar Þór, Hjörleifur, Magnús, Margrét, Stefán og Rafael eru arkitektar. Ásta og Ólafur eru verkfræðingar en hún er sérfræðingur í birtu og lýsingu í húsum. Páll Jakob er umhverfissálfræðingur og Egill er sem áður segir myndlistarmaður í Berlín.

Einn af stofnendum Torfusamtakanna 

Rætt var við Magnús í Morgunblaðinu 9. janúar síðastliðinn.

Magnús lærði arkitektúr við Oxford School of Architecture á sjöunda áratugnum og var einn af stofnendum Torfusamtakanna sem beittu sér fyrir endurreisn Bernhöftstorfunnar. Magnús var jafnframt einn af stofnendum Íbúasamtaka Vesturbæjar árið 1977 og varð síðar fyrsti formaður Íbúasamtaka Miðborgarinnar 2008. Hann átti sæti í byggingarnefnd Reykjavíkur árin 1974 til 1988 og var formaður árin 1979 til 1982.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert