Kynferðisbrot vegna Tiktok-áhrifa á borði lögreglu

„Þetta er rosalega sorgleg þróun og ég held það sé …
„Þetta er rosalega sorgleg þróun og ég held það sé gríðarlega mikilvægt að foreldrar axli bara ábyrgð og ræði við börnin sín,“ segir Bylgja. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

„Við höfum fengið inn á borð til okkar sambærileg mál og lýst er í þessari grein,“ segir Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og vísar til umfjöllunar mbl.is um kynferðisbrot meðal barna.

Þar var greint frá því að eina tegund þeirra megi rekja til Tiktok.

Segir hún samfélagsmiðla spila svakalega stórt hlutverk í kynferðisofbeldi milli barna.

Lykilatriði að foreldrar ræði við börnin sín

Bylgja segir lykilatriði að foreldrar ræði við börnin sín um ofbeldi og afleiðingar þess, burt séð frá því hvort það sé kynferðislegt, líkamlegt eða andlegt, verði fólk að setjast niður með börnunum sínum og ræða þessi mál.

Hún minnir á að ofbeldi sem slíkt hafi afleiðingar fyrir brotaþola fyrir lífstíð og að engin leið sé að vita úr hvernig aðstæðum viðkomandi komi, málið sé því eðli samkvæmt ofboðslega viðkvæmt.

„Þetta er rosalega sorgleg þróun og ég held það sé gríðarlega mikilvægt að foreldrar axli bara ábyrgð og ræði við börnin sín,“ segir Bylgja.

Foreldrar haldi ró sinni

Vísar hún til umfjöllunar mbl.is um málið, þar sem Kol­brún Hrund Sig­ur­geirs­dótt­ir, verk­efn­a­stýra of­beld­is- og kyn­heil­brigðismála hjá Barna­heill, bað foreldra að halda ró sinni í slíkum samræðum, börnin eigi ekki að þurfa að bera tilfinningalega byrði foreldra sinna.

Þó Kolbrún hafi átt við samræður þar sem börn tilkynni foreldrum sínum um að þau hafi verið beitt ofbeldi, má heimfæra ráð hennar á samræður foreldra og barna um ofbeldi almennt.

„Við þurf­um að byrja snemma, bara strax í leik­skóla, að tryggja að þau megi segja frá,“ er haft eftir Kolbrúnu. Mik­il­vægt sé að börnin fái óskipta at­hygli, þau upp­lifi sig ör­ugg og að þau geti treyst þeim sem rætt er við.

Ekki sé þörf á að fá all­ar upp­lýs­ing­ar um málið frá barn­inu, held­ur aðeins nægar upplýsingar til að átta sig á næstu skrefum. Hvort eigi mögulega að hafa sam­band við skól­ann, hringja í for­eldra, lög­reglu eða barna­vernd.

„Svarið er einfalt“

Aðspurð segir Bylgja fara eftir aldri barnsins hvort það geri sér grein fyrir því að um ofbeldi sé að ræða.

Í mörgum tilfellum geri þau það ekki, gerandi sé kannski að fíflast og gangi of langt eða hafi jafnvel í hyggju að hefna sín fyrir annað atvik.

Hún bendir þó á að barn sem sé komið í unglingadeild eigi að vera komið með þann þroska að átta sig á að þetta sé ofbeldi.

Minnir hún einnig á að góð leið til að fá börn til að átta sig á alvarleika málsins sé að spyrja hvort þau myndu vilja lenda í slíku sjálf, svarið sé væntanlega nei og þá megi spyrja aftur: „Af hverju ekki?“

„Þetta er voðalega einföld spurning þannig séð og svarið er einfalt líka.“

Þannig megi með samræðum við fullorðna aðila sem barnið treystir, tryggja skilning barnsins á að um sé að ræða ofbeldisbrot og gríðarlega alvarlegt mál.

Aðgerðaleysi sama og þátttaka

Í umfjöllun mbl.is kom fram að dæmi sé um að eftir íþróttatíma sé einum dreng haldið á gólf­inu, hann ligg­i fast­ur og verði fyrir umræddu nýju kynferðisafbroti meðal drengja sem rekja megi til Tiktok, á meðan aðrir standi í hring og hlæi.

Vert er að taka fram að umrætt kynferðisafbrot hefur sést hjá drengjum frá 2. upp í 9. bekk í grunnskóla.

Spurð hvort hegðun ungra drengja í slíkum aðstæðum megi rekja til meðvirkni eða að þeir þori jafnvel ekki að stíga út fyrir hópinn, segir Bylgja það líklega rétt ályktað.

Hún segir hegðunina að standa í hring og hlæja líklega hluta af eineltistilburðum og vitað sé að aðgerðarleysi í slíkum aðstæðum sé það sama og þátttaka.

„Með því að gera ekki neitt ertu að taka þátt í að viðkomandi verði fyrir einelti. Ef þú ekki lætur vita eða reynir ekki að stöðva hegðunina, þó þú takir ekki þátt í verknaðinum sjálfum.“

Að sama skapi geti það verið mjög erfitt fyrir þessa krakka að ætla að fara að tilkynna verknaðinn, „ef þeir eru til dæmis að reyna að komast inn í einhvern hóp eða eitthvað þannig“.

Sakhæfisaldur er fimmtán ára

Sakhæfisaldur á Íslandi er fimmtán ára, fyrir þann aldur er ekki hægt að sækja barn til saka fyrir ofbeldi, það breytist um leið og viðkomandi er orðinn fimmtán ára.

„Ef brotaþoli og gerandi eru undir aldri er þetta meira barnaverndar– og félagsþjónustumál. Þó það komi inn á borð til lögreglu og við skoðum þessi mál, en þau ná ekki framgang í kerfinu sem sakamál – sem gefur auga leið af því að enginn sakhæfur á hlut að máli.“

Lögregla skoði málið með það í huga hvort að einhver hafi verið sakhæfur þegar atburðurinn átti sér stað eða hvort að aðrir verði hugsanlega fyrir broti.

„Það er svoleiðis sem að við nálgumst þetta þegar að við erum að ræða um börn undir fimmtán ára aldri.“

Barnavernd grípi boltann

Þegar þolandi og meintur gerandi eru báðir undir sakhæfisaldri tekur lögreglan framburð af börnunum og talar við foreldra þeirra beggja, að sögn Bylgju.

Eru þá einhverjar forvarnir í kjölfarið eða eitthvað sem grípur gerandann?

„Já, það er tekinn framburður af öllum aðilum um málsatvik og svo er það barnavernd sem að grípur boltann og á að fylgja málinu eftir.“

Oft komi þessi mál í gegnum barnavernd til lögreglu, en það eigi oftar við þegar meintur gerandi er yfir sakhæfisaldri, þá beri þeim skylda að tilkynna málið til lögreglu.

„En þessi mál eru þannig að við getum í rauninni talað við alla aðila en það verður ekki að sakamáli sem slíku, en fer beint í barnavernd.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert