Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, setti landsfund flokksins formlega klukkan 10 í morgun á Grand hótel í Reykjavík.
Fundurinn er lokaður fjölmiðlum en þó verður þeim leyft að fylgjast með landsfundarræðu Ingu klukkan 14.
Landsfundur flokksins hefur ekki verið haldinn frá árinu 2019 en til stóð að halda fund í nóvember á síðasta ári en var honum frestað vegna alþingiskosninganna.
Inga hefur sagt landsfundarleysi flokksins vera ástæðuna fyrir því að flokkurinn hafi ekki verið skráður sem slíkur.
Stjórn Flokks fólksins sendi skattstjóra tilkynningu í janúar á síðasta ári um breytingu á skráningu flokksins úr almennum félagasamtökum í stjórnmálasamtök. Það er lagaskilyrði fyrir því að greiða megi stjórnmálaflokkum opinbera styrki.
Þann 19. febrúar 2024 gerði Skatturinn tvær athugasemdir við tilkynninguna ásamt því að þeim fylgdi ábending um frekari leiðbeiningar í sambandi við stjórnmálasamtök og skráningu þeirra.
Baldvin Örn Ólason, verkefna- og tæknistjóri Flokks fólksins, svaraði 5. mars 2024 og sagði flokkinn ætla að bíða með skráningu „þar til eftir aðalfundinn sem verður haldinn bráðlega“.
Þrátt fyrir að standast ekki lagaskilyrði fékk flokkurinn 240 milljónir króna úr ríkissjóði.