„Nú erum við orðin stjórnmálaflokkur“

Inga Sæland á landsfundinum fyrr í dag.
Inga Sæland á landsfundinum fyrr í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Flokks fólksins, hóf formannsræðu sína á landsfundi flokksins í dag á því að vitna í það sem samþykkt var á fundinum í dag, að skrá flokkinn sem stjórnmálaflokk hjá Skattinum. 

„Málflutningur okkar og þrautseigja allt frá upphafi hefur í vaxandi mæli haft áhrif á umræðuna um börn sem búa við fátækt, um öryrkja og eldri borgara sem hafa verið hunsaðir áratugum saman og ekki fengið sömu kjarabætur og aðrir. Þetta hefur sýnt sig í vaxandi fylgi hreyfingar okkar, eða réttara sagt ekki hreyfingar, nú erum við orðin stjórnmálaflokkur, ekki satt?"

Segir fyrrum borgarstjóra hafa farið á taugum

Í ræðu sinni fór Inga um víðan völl og snerti meðal annars á sögu flokksins. 

„Í kosningunum 2021 jukum við enn á þingi okkar og fengum tæplega 9% atkvæða og 6 þingmenn kjörna. Þannig þið sjáið að fylgið vex alveg í takt við mig," sagði Inga og mátti heyra mikil hlátrasköll. 

Inga Sæland og móðir hennar fyrir utan landsfund Flokks fólksins
Inga Sæland og móðir hennar fyrir utan landsfund Flokks fólksins mbl.is/Ólafur Árdal

Næsta umræðuefni ræðunnar var fyrrum borgarstjórn og nýkjörinn meirihluti hennar. 

„Fráfarandi borgarstjóri fór á taugum eftir að kannarnir höfðu ítrekað sýnt flokk hans með réttum þrjú prósenta fylgi. Hann leit sem það væri vegna ágreinings samstarfsflokkana um skógarhögg í Öskjuhlíð, aha. Og að lokum vegna flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli, þegar hann sem borgarstjóri hefði getað fyrirskipað skógarhöggið strax í nóvember og jafnvel bara byrjað að höggva sjálfur,“ sagði Inga og hélt áfram:

„En í nýjum meirihlutasáttmála þá fékk Flokkur fólksins því framfylgt að ekki verði riðlað við rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.“

„Hún er sko engin setustjórn“

Inga er í ræðu sinni bjartsýn fyrir starfi sitjandi ríkisstjórnar og segir hana vera einhuga um þau málefni sem Flokkur fólksins berst fyrir. „Nýja ríkisstjórnin ykkar er og verður verkstjórn, hún er sko engin setustjórn.“

Þá ítrekaði hún í ræðu sinni varðandi styrkjamálið svokallaða að flokkinum hafi ekki borist neinar leiðbeiningar eða ábendingar um hvernig ætti að sækja um styrki frá einum eða neinum. 

Í ræðu sinni snerti Inga meðal annars á þeim sem hún kallar „málgagn auðmanna landsins“. 

„Eftir kosningarnar núna var ráðist í hernað gegn Flokki fólksins. Málgagn auðmanna landsins hefur hamast á okkur með útúrsnúningum og hálf sannleik. Við höfum verið sökuð um þjófnað og óheiðarleika og vísvitandi blekkingar. Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir þrír flokkar sem voru mislengi að átta sig á skráningarmálum sínum hafa aftur á móti verið látnir í friði af málgagninu. Skrýtið ekki satt?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert