Púki kveður eftir 38 ár

Friðrik fóðrar dýrið Torres sem hann tók með sér til …
Friðrik fóðrar dýrið Torres sem hann tók með sér til vinnu um árabil. Villuleitarforritið Púki heldur nú inn í sól eftirlaunaáranna, en Friðrik er ekkert á leiðinni þangað. Myndin er frá 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allt hefur sinn tíma. Púkinn var svolítið byltingarkenndur á sínum tíma, en aðstæður hafa breyst,“ segir Friðrik Skúlason tölvunarfræðingur í samtali við mbl.is, landskunnur af samnefndu fyrirtæki og tölvuveiruvarnaforritinu Lykla-Pétri sem á sínum tíma gerði víðreist um heimsbyggðina.

Púki var hins vegar villuleitarforrit sem fjölmargir tölvunotendur frá fornu fari kannast við og Friðrik setti á markað árið 1987 – síðar kom svo til mikið og gott samstarf þeirra Steinþórs Bjarnasonar tekur hann sérstaklega fram. „Útgáfurnar fyrir Windows og allt það síðustu tvo áratugina er samstarfsverkefni okkar þótt ég hafi upphaflega skrifað Púkann,“ segir hann.

Tilefni þessa viðtals er met sem Púki hefur nú sett – líklega Íslandsmet þótt hvorki blaðamaður né Friðrik sjálfur séu með upplýsingar um það á hraðbergi. Nú er nefnilega komið að leiðarlokum hjá Púka, sem fitnað hefur á sínum stafræna fjósbita um áratuga skeið – ekki á bölbænum notenda sinna, eins og púkinn í þjóðsögunni, heldur á stafsetningar- og innsláttarvillum þeirra.

Púki hverfur nú inn í sólskin eftirlaunaáranna eftir 38 ára óeigingjarnt starf við þrotlausar leiðréttingar. Hann er einfaldlega barn síns tíma.

Aðalmálið að nota lítið minni

„Þegar hann var skrifaður upphaflega var aðaláherslan að nota eins lítið minni og hægt var, það var ekkert mikið minni í tölvum á þessum tíma,“ segir Friðrik og blaðamanni verður hugsað til fyrstu tölvunnar á sínu heimili árið 1984, Apple IIC sem skartaði 128 kílóbæta minni og þótti nálgast tunglferð í tækniframförum þegar stálminnug Amstrad-tölva, heil 640 kB, leysti þá fyrri af hólmi árið 1987. Nú mælast símar í hundruðum gígabæta.

„Núna í dag geturðu búið til svipuð kerfi með risavöxnum orðasöfnum sem var bara ekkert raunhæft að gera þarna '87,“ útskýrir tölvunarfræðingurinn – og það er ekki það eina sem hefur tekið breytingum á öllum þessum árum.

„Í dag er þetta allt að færast frá því að selja forrit yfir í að selja þjónustu,“ segir hann, „öll hugbúnaðarfyrirtæki í dag reyna að selja þér áskrift að forritum. Þú sérð hvernig Microsoft reynir að selja þér áskrift að Office. Púkinn var alltaf seldur sem „stand alone“ svo ég leyfi mér nú að sletta aðeins,“ heldur Friðrik áfram, en segir Púkann engu að síður hafa átt sér sitt þróunarferli.

Þjónusta á miðlægum netþjóni

„Hann breyttist úr því að vera forrit sem fylgdist með DOS-forritum [MS-DOS, Microsoft Disc Operating System var fornt kerfi Microsoft sem margir minnast með hlýju, grænir stafir á kolsvörtum bakgrunni] yfir í að lesa yfir Word- og Office-skjöl og þaðan yfir í að vera svokallað „plug-in“ við Office-pakkann. Þá nota Word og Excel Púka til að yfirfara texta á íslensku en erlent villuleitarforrit til að yfirfara texta á ensku,“ heldur Friðrik söguskýringum sínum áfram.

Púki er nafntogaðasta stafsetningarvilluleitarforrit Íslands svo sem sjá má af …
Púki er nafntogaðasta stafsetningarvilluleitarforrit Íslands svo sem sjá má af því að nafnið hefur fengið stöðu eins konar samheitis yfir villuleitarforrit, eða „villupúka“ sem stundum heyrist talað um. Skjáskot/Puki.is

Svo hafi Office 365 litið dagsins ljós hjá Microsoft. Þá hafi ekki lengur verið um hugbúnað að ræða sem hver notandi var með uppsettan á sinni vél, heldur hafi þar með komið til þjónusta „sem keyrir svona „í skýinu“, eins og menn kalla það, og þá er ekkert hægt að setja eitthvert svona forrit. Þú þarft að vera með þjónustu sem keyrir á einhverjum miðlægum netþjóni og selja notandanum áskrift að henni,“ segir viðmælandinn.

Slíkt sé hann einfaldlega ekki að fást við.

„Salan er orðin það lítil á þessu forriti að hún stendur einfaldlega ekki undir kostnaði við sölu og þjónustu. „Og þá er bara kominn tími á þetta,“ segir Friðrik.

Lítill svartur kassi í miðjunni

Í framhaldinu kveður hann það í sjálfu sér ekkert merkilegt að líftími einhvers forrits sé kominn á enda. „Það eina sem gerir þetta merkilegt er að þetta forrit er búið að ganga í 38 ár sem er örugglega nálægt því að vera met – og kannski ekki bara á Íslandi,“ segir Friðrik og nefnir dæmi um önnur langlíf fyrirbæri á vettvangi hins stafræna, svo sem tölvuleikina Civilization og Tetris.

„Þarna er einhver ákveðinn grunnkóði eða hönnun sem heldur sér á meðan nýtt og nýtt útlit kemur og ytra byrði. Og það er alveg sama með Púkann í öll þessi ár. Lengst inni í honum er lítill kjarni, svona lítill svartur kassi í miðjunni, sem vinnur alla vinnuna sem tengist íslenskunni, en utan um eru svo mismunandi einingar fyrir notendaviðmót og þess háttar,“ segir Friðrik.

Í stuttu máli hafi bransinn breyst og ekki sé lengur markaður fyrir forrit á borð við Púka.

Vinnuna á bak við Púkann segir Friðrik hafa verið umtalsverða á sínum tíma. „Þar var öll íslenska beygingarfræðin forrituð, ég þurfti að greina beygingu hvers einasta orðs í íslensku, allra nafnorða, sagnorða, lýsingarorða og annarra og forrita það allt. Púkinn geymdi svo bara orðstofna, reglur um hvernig orð væru mynduð og sett saman og svo byggðist þetta bara á því að ef orðið sem hann var að skoða gæti verið íslenska, væri rétt samsett miðað við það, þá samþykkti hann það,“ lýsir Friðrik og nefnir dæmi af Alþingi þar sem Púkinn tók ákvörðun byggða á þessum reglum.

Þar hafi ræða þingmanns sloppið gegnum nálarauga Púka vegna þess að fræðilega séð gat það verið íslenska. „Þar átti að standa „hæstvirtur þriðji þingmaður Suðurlands“ eða eitthvað álíka, nema hvað að ð-ið í þingmaður féll niður og stóð þá eftir „hæstvirtur þriðji þingmaur Suðurlands“. Þingmaur er alveg gott og gilt orð í íslensku svo Púkinn sleppti því í gegn,“ rifjar Friðrik upp af yfirsjón sem í raun er fullkomlega skiljanleg miðað við framangreinda frásögn af forritun og starfsháttum Púka.

Milljónasti einstaklingurinn í Íslendingabók

Auk villuleitarforritsins nafntogaða minnast einhverjir líklega ættfræðiforritsins Espólín frá árinu 1988 sem Íslendingabók þróaðist út frá í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu „og við vorum núna í dag að skrá milljónasta einstaklinginn inn í Íslendingabók,“ segir Friðrik frá og hefur í raun að minnsta kosti jafnt fréttagildi á við 38 ára sögu Púka.

Friðrik Skúlason er einn þeirra sem hafa marga fjöruna sopið …
Friðrik Skúlason er einn þeirra sem hafa marga fjöruna sopið eins og sagt er. Hér er mynd úr Morgunblaðinu án ártals, líkast til komin nokkuð til ára sinna. Morgunblaðið/Emilía Björg Björns

„Stóra málið hjá mér var hins vegar vírusleitarforritið Lykla-Pétur sem var selt út um allan heim, fyrirtækið gekk mest út á það, við vorum með 50 manns í vinnu þegar mest var, Púki og Espólín voru í raun bara smáforrit,“ segir Friðrik frá.

Ertu þá sestur í helgan stein?

„Nei nei, ég geri það nú aldrei,“ svarar Friðrik án minnsta hiks, „ég er ekki að þróa neitt nýtt hins vegar, ég er bara að dútla við það sem ég hef verið að gera og slaka á,“ heldur hann áfram – en bætir þó við:

„Frúin er reyndar að mótmæla því að ég sé eitthvað að slaka á, en það er nú annað mál,“ segir Friðrik Skúlason tölvunarfræðingur að lokum, faðir Púkans sem nú sest í steininn helga eftir 38 ára villuleit.

Markaðurinn er horfinn

Í lokin flýtur hér með pistill sem Friðrik skrifaði í gær í Facebook-hópinn Forritarar á Íslandi og fjallar um lífshlaup villuleitarforritsins Púka:

Eftir 38 ár er sennilega komið að leiðarlokum hjá því íslenska forriti sem lengst hefur verið á almennum markaði. Þetta er forrit sem fór fyrst í sölu 1987 og er því sennilega nokkuð eldra en margir sem lesa þetta innlegg.

Ég er að tala um forritið "Púki".

Stafsetningarvilluleitunarforrit sem upphaflega var sett á markaðinn sem DOS forrit sem fylgdist með lyklaborðinu og gaf frá sér "píp" ef óþekkt orð var slegið inn.

Aðstæður voru öðru vísi þá - tölvur voru almennt með 640 KB af minni og þar af hafði ég í mesta lagi um 100 KB til afnota, sem urðu að duga til að geyma orðstofnalistann, alla íslensku beygingafræðina og reglur um samsetningu orða. Það hjálpaði mikið að í íslenska stafrófinu voru aðeins 32 stafir, þannig að 5 bitar dugðu fyrir hvern staf.

Forritið þróaðist síðan yfir í yfirlestrarforrit sem las Word og WordPerfect skrár en síðustu áratugina hefur það verið notað sem "plug-in" í Microsoft Office.

Kjarninn í forritinu - beygingagreiningin - hefur hins vegar lítið breytt, þótt orðaforðinn hafi aukist samhliða breytingum á íslensku á þessum 38 árum.

Málið er hins vegar að markaðurinn fyrir svona forrit er horfinn - til að það vinni með Office 365 þá þyfti að búa til miðlæga þjónustu í samstarfi við einhverja þjónustuaðila Microsoft, en enginn áhugi virðist fyrir slíku - og sá hópur notenda sem ekki notar Office 365 er ekki nægjanlega stór til að salan standi undir sér.

Hvað um það - 38 ár er ekki slæmt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert