„Staðan er nokkurn veginn svipuð núna og verið hefur undanfarnar vikur,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, innt eftir gangi mála við Sundhnúkagígaröðina austur af Svartsengi á Reykjanesskaga, en í umfjöllun á vef Veðurstofunnar í gær kom fram að uppfærðir líkanreikningar sýndu að kvikusöfnun undir Svartsengi hefði náð sama rúmmáli og hljóp þaðan í síðasta gosi er hófst 20. nóvember.
Segir Steinunn að líkur hafi verið að því leiddar síðustu vikur að gígaröðin færi að nálgast gos, „nú hefur verið örlítil aukning í skjálftavirkni á svæðinu, landris heldur áfram þótt hægst hafi á því. Þetta getur gerst í dag og eins eftir nokkrar vikur, um það er erfitt að segja,“ heldur Steinunn áfram og bætir því við að samkvæmt gögnum Veðurstofu sé stöðin tilbúin en um það verði ekki meira sagt að svo búnu.
Spurð út í skjálftavirkni á Hengilssvæðinu svarar Steinunn því til sem er gömul saga og ný af því svæði, það sé mjög virkt og skjálftar þar því tíðir auk þess sem jarðhitavirkjanir reki starfsemi sína á svæðinu sem enn auki á hreyfanleika þess.
Segir á síðu Veðurstofunnar að komi til eldgoss verði það áttunda gosið á Sundhnúkaröðinni frá desember 2023 að telja.
„Vegna þessara endurteknu atburða þar sem kvikugangar og gossprungur hafa myndast hefur spenna í jarðskorpunni minnkað með hverjum atburði. Það þýðir að sífellt færri og minni skjálftar mælast á svæðinu vikurnar og dagana fyrir gos en gerðu í aðdraganda fyrstu eldgosanna,“ segir þar enn fremur.