Sanna Magdalena Mörtudóttir, nýkjörinn forseti borgarstjórnar, segist telja að um misskilning hafi verið að ræða þegar hún náði ekki kjöri í til forseta borgarstjórnar í fyrstu atkvæðagreiðslu á fundi borgarstjórnar í gær.
„Það kom í ljós að það voru 11 atkvæði sem ég fékk greidd til að vera forseti borgarstjórnar, þannig ég geri ráð fyrir því að þarna hafi einhver misskilningur átt sér stað. Þetta er eitthvað sem við höfðum sammælst um,“ segir Sanna í samtali við mbl.is.
Samkvæmt samþykktum borgarstjórnar á í tilfellum sem þessum að kjósa aftur þar til að meirihluti næst fyrir forseta borgarstjórnar. Það var gert og þá hlaut Sanna 12 atkvæði og var kjörin forseti borgarstjórnar.