„Þetta er grafalvarleg staða“

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mun óska eftir fundi með …
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, mun óska eftir fundi með Vegagerðinni á mánudaginn. Samsett mynd mbl.is/Karítas/Ljósmynd/Vegagerðin

Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að upp sé komin grafalvarleg staða þegar kemur að vegum Vesturlands. Hann hyggst óska eftir fundi með Vegagerðinni á mánudag til að fara yfir stöðuna.

Í viðtali við mbl.is í síðustu viku sagði Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar vegina á Vesturlandi marga hverja vera stórhættulega. Nefndi hún t.a.m. að bílar yrðu stundum óökufærir er þeir keyrðu vegina og að íbúar þyrftu þá að láta sækja sig.

Benti hún á að aukið fjármagn þyrfti til Vesturlands og kallaði eftir því að Alþingi myndi samþykkja neyðarfjárveitingar á þessu ári svo laga mætti verstu kafla veganna.

Í kjölfarið ræddi mbl.is við Bergþóru Þorkelsdóttur vegamálastjóra.

„Við erum alvarlega undirfjármögnuð í viðhaldi og búin að vera það í langan tíma þannig að við erum komin með talsvert marga vegi sem eru bara á brotpunkti,“ sagði Bergþóra í samtali við undirritaðan þá.

Hefur rætt málið við forsætisráðherra

„Þetta er grafalvarleg staða og við erum að skoða málið. Ég mun óska eftir fundum með Vegagerðinni á mánudaginn og fara yfir málið betur,“ segir Eyjólfur Ármansson við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.

Segist ráðherrann hafa rætt málið við Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra.

„Það er alveg ljóst hvað mun gerast ef það kemur ekki aukið fé í málaflokkinn.“

Vísar hann þar til þess þegar bundið slitlag var tekið af vegum á Vesturlandi sökum þess hve illa þeir voru farnir. Þess í stað var komið upp malarvegum. Í samtali við Ríkisútvarpið í vikunni sagði Vegamálastjóri að slíkt gæti endurtekið sig.

Þessi ríkisstjórn ætlar að vinna í viðhaldsskuld“

Aðspurður segir Eyjólfur neyðarfjárveitingar vera til skoðunar. Vitað sé hvað muni gerast ef ekki verður farið í aðgerðir.

Þú ætlar að óska eftir fundi, ertu vongóður um að það fari að sjást einhverjar breytingar?

„Það verður bara að koma í ljós. Þessi ríkisstjórn ætlar að vinna í viðhaldsskuld og það er alveg klárt mál að það er mikil viðhaldsskuld þarna,“ segir ráðherrann og bætir við:

„Verðmæti vega í landinu eru 1.200 milljarðar og við verðum að halda vegakerfinu við.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert