„Bandaríkin eru ein okkar helsta vinaþjóð í gegnum viðskipti, varnir og öryggi og af hálfu Íslands verður ekki breyting þar á,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
mbl.is ræddi við Þorgerði að loknum ríkisstjórnarfundi í gær og var hún þar spurð hvort frekari samskipti hefðu átt sér stað við yfirvöld í Bandaríkjunum í vikunni eftir að Donald Trump kvaðst leggja virðisaukaskatt á innfluttar vörur að jöfnu við tolla.
„Ekki varðandi það nema að við erum náttúrulega bara í samtali alltaf við bandaríska stjórnkerfið. Við erum vakandi eins og aðrar Norðurlandaþjóðir. Við erum svolítið að fylgjast með þessu í takti við aðrar Norðurlandaþjóðir,“ segir Þorgerður og bætir við:
„Ég held að það sem við þurfum að passa mest núna er að við lendum ekki í svari Evrópu gagnvart Bandaríkjunum. Tollarnir, eins og staðan er núna, eru ekki eins mikil hætta frá Bandaríkjunum eins og maður kannski upphaflega hélt en auðvitað sér maður að það breytist dag frá degi.“
Hún segir þó að þegar menn séu farnir að skipta sér af skattlagningu hvers ríkis sé byrjað að „seilast ansi langt“.
Hún undirstrikar þó að Bandaríkin séu ein helsta vinaþjóð Íslands og það sé ekki að fara að breytast.
„Ef eitthvað er, þá viljum við gjarnan styrkja það samstarf.“