Fram er komin á Alþingi beiðni til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um skýrslu um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og um viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar.
Er ráðherra m.a. spurður um hvort verklag Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia í aðdraganda lokunarinnar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
Níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknarflokksins standa að skýrslubeiðninni, en fyrsti flutningsmaður málsins er Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Þess er óskað að í skýrslunni verði fjallað um samskipti Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu, Isavia og eftir atvikum annarra aðila í aðdraganda lokunar flugbrautarinnar sem og tímalínu málsins frá undirritun samkomulags ríkisins og Reykjavíkurborgar frá árinu 2013 um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli.
Einnig er óskað umfjöllunar um verklag og verklagsreglur Samgöngustofu og Isavia við lokun flugbrauta og hvort Reykjavíkurborg hafi fylgt skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2009.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.