Alltaf nóg að gera á konudeginum

Haraldur Sigfússon, framkvæmdastjóri Reykjavíkurblóma.
Haraldur Sigfússon, framkvæmdastjóri Reykjavíkurblóma. mbl.is/Ólafur Árdal

Í dag er konudagurinn og venju samkvæmt er nóg um að vera í blómabúðum landsins.

Haraldur Sigfússon eigandi blómabúðarinnar Reykjavíkurblóma segir að alltaf sé nóg að gera á konudeginum.

„Auk þess að vera með búð okkar í Borgartúninu erum við einnig með sendingarþjónustu. Það hefur því verið nóg að gera í morgun og við vorum að senda út fullt af blómum rétt áðan,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.

Haraldur segir að konudagurinn sé frábrugðinn öðrum dögum að því leyti að mest er að gera í kringum hádegið en ekki síðdegis eins og venjulega.

Konudagurinn er stór dagur fyrir blómabúðir landsins.
Konudagurinn er stór dagur fyrir blómabúðir landsins. mbl.is/Ólafur Árdal

Sígildar rósir

Konudagurinn er ásamt mæðradeginum sá dagur þar sem mest er að gera í búðinni að sögn Haraldar.

„Þetta er konudagurinn og svo mæðradagurinn, mæðradagurinn er rosalega stór. Valentínusardagurinn er aðeins minni og er í þriðja sæti. Vinsældir valentínusardagsins hafa þó aukist síðastliðin ár og þá sérstaklega hjá ungu kynslóðinni og hjá útlendingum sem búsettir eru hér.“

Vinsælasta varan á konudeginum er sígild og mun líklega seint breytast.

„Það eru bara rósirnar, það er það sama og á mæðradeginum. Það er alltaf klassískt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert