„Ég hef fengið mikla hvatningu alls staðar af landinu til þess að bjóða mig fram og ég, með minn bakgrunn í innra starfi flokksins í þrjá áratugi, innan úr atvinnulífinu og sveitarstjórnarstörfunum, tel að ég geti komið með ákveðna reynslu inn í forystu flokksins.“
Þetta segir Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag tilkynnti Jens um framboð sitt til varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Landsfundur flokksins verður haldinn í Laugardalshöllinni um næstu helgi og kosið verður um formann, varaformann og ritara á sunnudegi fundarins.
Sjálfstæðisflokkurinn fékk sögulega lítið fylgi í síðustu þingkosningum.
Spurður hvað flokkurinn þurfi að gera í stjórnarandstöðu til að endurheimta fylgið segir Jens að flokkurinn þurfi að leggja áherslu á frelsismál, sem hann segir að nýr þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafi verið að gera á fyrstu vikum þingsins.
„Sem dæmi þá við vorum að tala fyrir því að hluti af útvarpsgjaldinu ætti að vera valfrjálst, hvert þú lætur þriðjung af útvarpsgjaldinu. Þetta er frelsismál og við höfum verið að tala fyrir ákveðnum málum sem snúa að því. Við verðum að tala meira fyrir því að minnka þetta þunglamalega regluverk sem er alltumlykjandi, eins og í orkumálunum og öðru,“ segir Jens.
Hann tekur einnig fram að menntamálin skipti miklu máli og að Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi komið þar sterkur inn.
„Varðandi frelsismálin þá ég held að þarna eigi Sjálfstæðisflokkurinn að vera. Tala fyrir atvinnulífinu í landinu, að liðka fyrir að fólk geti stofnað fyrirtæki, að fólk geti rekið sín fyrirtæki og öðrum stórum málum sem snúa að til dæmis að menntamálum og fleira,“ segir Jens.
Eftir fimm daga verður landsfundurinn settur og Jens ætlar að einbeita sér að því að heyra í landsfundarfulltrúum og reyna hitta sem flesta á sjálfum á fundinum.
„Þetta er bara maður á mann og það er það sem við þurfum að styrkja enn þá frekar. Tala saman og vinna í innra starfinu,“ segir hann.
Heldurðu að þú verðir einn í framboði eða telur þú að þú fáir mótframboð?
„Já, mér þykir nú líklegt að ég fái mótframboð en þau hljóta þá að líta dagsins ljós núna á næstunni.“
Viltu frekar fá mótframboð eða viltu vera einn í framboði?
„Ég bauð mig nú ekki fram því ég hélt ég yrði einn í framboði,“ segir Jens kíminn og heldur áfram:
„Ég held að það sé bara gott að sjálfstæðismenn hafi úr fleiri en einum að velja, ef það verður niðurstaðan. Við höfum aldrei veigrað okkur við því að geta tekið slaginn.“