Jens Garðar býður sig fram til varaformanns

Jens Garðar Helgason gefur kost á sér til embættis varaformanns …
Jens Garðar Helgason gefur kost á sér til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd/Aðsend/mbl.is/Arnþór

Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og þingmaður, ætlar að gefa kost á sér til embættis varaformanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Jens Garðar var áður oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð og sveitarstjórnarmaður í 12 ár. Hefur hann einnig gegnt trúnaðarstörfum innan flokksins.

Hann var varaformaður Samtaka atvinnulífsins í fjögur ár og sat í framkvæmdastjórn samtakanna í sex ár.

Megi ekki tjóðra niður kraftinn með vantrú

„Fram undan eru mikilvæg verkefni sem skipta landið allt máli. Við þurfum að stíga stór skref í þá átt að leysa betur úr læðingi þá krafta sem búa í þjóðinni. Einkaframtakið, öflugur atvinnurekstur um allt land og frelsi til að framkvæma, leggja grunninn að allri farsæld okkar sem þjóðar.

Kraftinn má ekki tjóðra niður með vantrú, óþarfa hindrunum, þunglamalegu regluverki eða með því að líta á atvinnulífið sem mjólkurkú fyrir hið opinbera,“ er haft eftir Jens í tilkynningunni.

Diljá og Jón hugsa málið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fráfarandi varaformaður, tilkynnti það 23. janúar að hún ætli ekki að sækjast eftir að bjóða sig fram í embætti hjá Sjálfstæðisflokknum á komandi landsfundi. 

Jens Garðar er sá fyrsti til að bjóða sig fram í varaformanninn en alþingismennirnir Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir og Jón Gunnarsson hafa verið orðuð við framboð til varaformanns flokksins.

Þegar hafa þingmennirnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir tilkynnt um framboð sitt til formanns flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert