Lægð sem nálgast hefur landið sunnan úr hafi í nótt mun stýra veðrinu í dag og á morgun, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar.
Gengur í austan og norðaustan 10-18 m/s með rigningu víða um land. Slydda eða snjókoma í innsveitum og á heiðum á norðurhluta landsins.
„Talsverð rigning á Suðausturlandi og Austfjörðum, enda eru þeir landshlutar mest útsettir fyrir úrkomu þegar lægð nálgast landið með þeim hætti sem við búumst við í dag. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst,“ segir í hugleiðingunum.
Lægir sunnan- og austanlands í kvöld og dregur úr úrkomu.
Á morgun verður norðanáttardagur, ýmist kaldi eða strekkingur. Þá má búast við slyddu eða snjókomu með köflum á norðurhluta landsins. Lítil eða engin úrkoma sunnanlands.
„Það kólnar smám saman með norðanáttinni og væntanlega komið frost um mestallt land annað kvöld.“