Reykjavíkurborg barst aðeins ein uppsögn frá grunn- eða leikskólakennara eftir að sveitarfélög höfnuðu innanhústillögu ríkissáttasemjara á föstudag. Ekkert hefur frést af fleiri uppsögnum kennara á höfuðborgarsvæðinu.
Mikill hiti hefur færst í kjaradeilu Kennarasambands Íslands við ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Á föstudag hafnaði SÍS innanhústillögu sáttasemjara sem kennarar höfðu samþykkt. Kennarar gengu margir út af vinnustöðum sínum í framhaldi af því.
Fyrir Magneu Arnardóttur, leikskólakennara á Rauðhól í Reykjavík, reyndist svar sveitarfélaganna kornið sem fyllti mælinn. Hún sagðist í samtali við mbl.is hafa sagt upp störfum sínum sem leikskólakennari á föstudag.
Fleiri kennarar á höfuðborgarsvæðinu virðast ekki hafa sagt upp störfum sínum.
Steinn Jóhannsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að sviðinu hafi aðeins borist eitt uppsagnarbréf frá kennara á föstudag. Sviðsstjórinn gefur ekki upp frá hvaða skóla uppsögnin barst en gera má ráð fyrir að hún hafi borist frá fyrrnefndri Magneu.
Steinn gerir ekki ráð fyrir að fleiri uppsagnir hafi borist en bendir þó á að grunnskólar séu nú í vetrarfríi.
Upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, Sigríður Björg Tómasdóttir, segir að menntayfirvöld hafi ekki frétt af neinni uppsögn í grunn- eða leikskólum frá því á föstudag.
Árdís Ármannsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðar, segir í samtali við mbl.is að hún hafi heldur ekki heyrt af neinum uppsögnum hjá kennurum. Upplýsingafulltrúi Garðabæjar, Ásta Sigrún Magnúsdóttir, sagði einnig að engar uppsagnir hafi borist skólasviði bæjarfélagsins.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, kveðst sömuleiðis ekki hafa heyrt af neinum uppsögnum í bæjarfélaginu. Ólöf Kristín Sívertsen, sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðs Mosfellsbæjar, segir einnig að engin uppsögn hafi borist á sitt borð.
Veist þú meira? Hafðu samband á frettir@mbl.is