Björn Zoëga í forstjórastólinn

Björn Zoëga á sér áratugaferil sem bæklunarskurðlæknir með hryggjarskurðlækningar sem …
Björn Zoëga á sér áratugaferil sem bæklunarskurðlæknir með hryggjarskurðlækningar sem sérgrein en hefur nú um langt árabil sinnt æðstu stjórnendastöðum á sjúkrahúsum á Íslandi, í Svíþjóð og í Sádi-Arabíu. Á þessari tólf ára gömlu mynd hafði skrifstofan þegar tekið við af skurðstofunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Stjórnin bað mig um þetta fyrir viku og svo fór tími í að vinna úr þessu þannig að þetta var gert opinbert í dag,“ segir Björn Zoëga, sem í dag tók formlega við forstjórastöðu King Faisal-háskólasjúkrahússins í Sádi-Arabíu, og verður yfir aðalsjúkrahúsinu í Riyadh, en King Faisal rekur einnig starfsstöðvar í borgunum Jeddah og Madinah.

Aðspurður kveður Björn nýju stöðuna í raun hafa verið eðlilegt framhald aðstoðarforstjórastöðu hans á sjúkrahúsinu sem hann hefur gegnt um tæplega eins árs skeið.

„Miðað við þær breytingar sem við höfum verið að gera á spítalanum, með áherslu á Riyadh, er þetta í raun eðlileg þróun,“ segir Björn og útskýrir uppbyggingu sjúkrahússins í stuttu máli.

„Riyadh eru höfuðstöðvarnar og ég tek við forstjórastöðu þar, sjúkrahúsið er rekið eins og samstæða [e. group]. Sá sem var á undan mér var forstjóri yfir samstæðunni og hinum tveimur spítölunum sem eru mun minni og ég er aðstoðarforstjóri áfram yfir samstæðunni svo þetta er pínu flókið,“ segir forstjórinn nýbakaði.

Riyadh-sjúkrahús King Faisal-samstæðunnar er að sögn Björns það sjúkrahúsanna þriggja sem litið er til sem fulltrúa allra þriggja, það sé til dæmis tekið til mats þegar verið er að raða á lista yfir bestu sjúkrahús heimsbyggðarinnar og skoða stöðu á vettvangi læknavísindanna.

Forverinn entist átta vikur

„En við erum með sameiginleg starfsmannamál og fjármál, sem eru einmitt að mestu undir mér, þetta eru svona áherslubreytingar, ég hef verið að gera breytingar á skipulagi og því hvernig við vinnum hérna í Riyadh og það hefur gengið það vel að stjórnin bað mig að taka við þessu formlega,“ segir Björn.

Þú lætur þetta hljóma eins og hreint formsatriði, en einhverjar hljóta breytingarnar að vera á lífi þínu og vinnudeginum.

„Jú jú, þetta er auðvitað önnur og meiri ábyrgð og gerðar miklar kröfur. Menn eru fljótir að hverfa frá ef ekki gengur vel, forveri minn entist í átta vikur í stöðunni. Þetta er auðvitað heilmikil breyting,“ játar Björn, „þessu fylgja aukin völd og það verður auðveldara fyrir mig að gera sumar breytingar og það er það sem við erum að gera núna, við erum að breyta því hvernig hugsað er um sjúklingana, hvaða leiðir eru notaðar þar og hvernig vinnuhættir eru inni á spítalanum auk þess sem við erum að tæknivæða spítalann með nýjum tækjum í samstarfi við fullt af fyrirtækjum, þannig að það er mikið að gerast,“ heldur hann áfram.

Á Landspítalanum fyrir margt löngu.
Á Landspítalanum fyrir margt löngu. mbl.is/Árni Sæberg

Björn er bæklunarskurðlæknir og hefur marga fjöruna sopið á skurðstofunni þótt skrifstofan hafi fyrir margt löngu leyst hina fyrrnefndu af hólmi. Hann er spurður hvort núverandi starf feli eingöngu í sér stjórnsýslu spítalans.

„Já, ég er alfarið í stjórnsýslu, en það kemur fyrir einu-sinni tvisvar í viku að menn koma til mín og biðja um ráð út frá minni sérgrein, ég hef nokkurra tuga ára reynslu í ákveðnum sérhæfðum vandamálum sem tengjast hryggjarskurðlækningum,“ svarar Björn sem lauk sérnámi í slíkum skurðlækningum frá Sahlgrenska-sjúkrahúsinu í Gautaborg snemma á öldinni. „Og svo er maður auðvitað alltaf eitthvað í kringum vísindastarf,“ bætir hann við.

Fjórtán tíma vinna á dag í 86 daga

Hvernig finnst þér að vera kominn alfarið yfir í stjórnunarstöðu, nú er auðvitað langt um liðið síðan það gerðist, og alveg hættur að „praktisera“?

Björn íhugar spurninguna stundarkorn. „Það er dálítið skrýtið,“ svarar hann svo, „þetta þróaðist bara þannig. Þegar covid kom og ég var að vinna í Stokkhólmi – Stokkhólmur lenti mjög illa í því – þá þurftum við að taka inn gríðarlegan fjölda sjúklinga sem var rosaleg vinna. Þegar við reiknuðum þetta út þá komu einu sinni 86 dagar í röð sem við unnum fjórtán tíma eða meira.

Þá varð ég að hætta að skera og aðstoða sjúklinga og svo var auðvitað fullt að gera í rúmt ár á eftir. Ég komst þá eiginlega ekkert af stað aftur og núna þyrfti ég miklu meiri undirbúning en einn dag í viku til þess að skera. Þannig að þetta kom eiginlega hálfpartinn af tilviljun, en þannig er það nú oft í lífinu,“ segir forstjórinn og bæklunarskurðlæknirinn sem kominn er alla leið til Sádi-Arabíu eftir að hafa gegnt stjórnunarstöðum á Íslandi og lengi í Svíþjóð.

Aðspurður játar hann að nýja staðan í Riyadh hafi komið honum örlítið á óvart, hún hafi ekki alveg verið sjálfsagt framhald þótt hún hafi í raun verið rökrétt framhald.

„Fljótlega eftir að ég kom hingað kom tillaga að breyttu stjórnskipulagi sem búið er að innleiða núna. Við vorum að klára það núna í byrjun janúar. Ég sá þá möguleika á að breyta enn þá meira og geri okkur aðeins straumlínulagaðri. Stjórnin var hlynnt þeim breytingum og þá kom þetta meira svona af sjálfu sér,“ segir hann og útskýrir nánar.

Aðstoðarforstjórarnir á spítalanum hafi í raun ekki svo mikil völd, þeir séu meira forstjórunum til aðstoðar. En miðað við hans feril í aðstoðarforstjórastöðunni og þátt hans í áðurnefndu breytingaferli hafi ekki verið óeðlilegt að stjórnin kæmi að máli við hann.

Byggingar King Faisal-háskólasjúkrahússins í Riyadh í Sádi-Arabíu, en sjúkrahúsið hefur …
Byggingar King Faisal-háskólasjúkrahússins í Riyadh í Sádi-Arabíu, en sjúkrahúsið hefur einnig aðstöðu í Jeddah og Madinah þar í landi. Ljósmynd/Saudipedia

Gætirðu hugsað þér að ílengjast í Sádi-Arabíu, landi sem er svo framandi norðurevrópskum menningarheimi?

Björn hlær við. „Maður veit það aldrei, ég er ekki farinn að hugsa svo langt,“ svarar hann svo. „Ég gerði hér þriggja ára samning og það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast og hvernig gengur. Ég hef ekkert út á samfélagið hér að setja, hér er mjög vinalegt samfélag og mér hefur verið tekið mjög vel. Hér er líka mikill metnaður og það hentar mér ágætlega, menn vilja mikið,“ segir Björn og bætir því við að á Vesturlöndum sjái margir ofsjónum yfir meintum auði Sádi-Arabíu.

„Þetta er ekki eins og margir halda út frá íþróttamönnum og öðru að hér sé gnótt peninga fyrir allt og alla, það er langt í frá þannig og kannski var það það sem kom mér mest á óvart, að hér væri ekki þessi auðlegð í sumum hlutum eins og ég bjóst við,“ segir Björn.

Þarf að venja fólk við að hann viti ekki allt best

Blaðamann fýsir að vita um stjórnunarhætti og samskipti yfir- og undirmanna í miðaustrinu og Björn svarar greiðlega.

„Reyndar er það nú þannig að allir mínir undirmenn hafa menntun frá Vesturlöndum og þekkja kerfið þar mjög vel. Nú á þessi spítali fimmtíu ára afmæli í ár og hann var byggður upp af bandarískum læknum. Sá kúltúr hefur því í raun alveg haldist hérna alla tíð. Stærsti munurinn er kannski að það er aðeins þyngra í vöfum hérna að fá fólk til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og þora að standa með því sem er réttast að gera. Það þarf alveg að venja fólk við að ég viti ekki alla hluti betur en allir aðrir, ég styðji bara við þær ákvarðanir sem eru bestar næst sjúklingnum,“ segir Björn Zoëga að lokum, forstjóri King Faisal-sjúkrahússins í Riyadh í Sádi-Arabíu, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert