Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir mikilvægt að sýna stuðning sinn í verki við Úkraínu, sem Ísland gerir meðal annars með auknum fjárframlögum og þátttöku í samstarfsverkefni. Hún sé ekki komin hingað til Kænugarðs til að segja bara eitthvað heldur sýna stuðninginn.
Forsætisráðherra ræddi við blaðamann mbl.is í Kænugarði eftir fund leiðtoganna.
Hvaða árangri telurðu að svona fundur eins og í dag skili?
Það skiptir auðvitað lykilmáli að bandamenn Úkraínu, þjóðir sem hugsa með svipuðum hætti sýni stuðning sinn í verki. Við erum meðal annars komin hérna í dag, ekki bara til að segja eitthvað, heldur líka að sýna bókstaflega okkar stuðning í verki með því að standa við skuldbindingarnar okkar. Það var loforð gefið á NATO fundi í fyrra um að við myndum taka þátt í varnartengdum útgjöldum í tengslum við Úkraínu og við myndum uppfylla okkar hlutfall af landsframleiðslu,“ segir Kristrún.
„Í yfirstandandi fjárlögum var ekki staðið við það. Það er eins með þingsályktunartillögu Alþingis sem fól í sér að við myndum sækjast eftir því að vera í takt við Norðurlöndin. Við náum auðvitað ekki alveg í því skrefi núna. En við erum að sýna okkar stuðning í verki hérna og það eru fleiri þjóðir að taka þátt,“ segir Kristrún sem greindi frá því í dag að Ísland myndi auka fjárstuðning sinn við Úkraínu.
Með því nemur stuðningur Íslands 3,6 milljörðum króna á þessu ári. Kristrún segir að fyrir land eins og Íslands skipti miklu máli að vera í samvinnu. Tekið sé eftir því á alþjóðavísu að hlutfallslega er stuðningur Íslands mikill.
„Við erum auðvitað ekki að gera þetta ein. Við gætum auðvitað ekki gert neitt ein. Og okkar stuðningur. Þegar við lítum á stóru myndina. Þó stuðningur okkar sé hlutfallslega mikill og eftir því er tekið, þá gætum við þetta auðvitað ekki nema í bandalagi NATO-ríkjanna og með NATO-ríkjunum og Evrópu,“ segir Kristrún.
Spurð að því hvort hún sjái fyrir sér að Ísland muni bæta í framlög sín til varnarmála og fari að verja 2,5% af verg landsframleiðslu í varnarmál segir Kristrún það vera aðra umræðu því þar sé verið að ræða um meira en bara framlög til NATO,
„Þær upphæðir sem er verið að tala um hérna, sérstaklega fyrir Úkraínu. Við höfum auðvitað mestmegnis verið að styðja og mikið til verið að styðja Úkraínu í gegnum mannúðaraðstoð og gerum það ennþá og borgaralega aðstoð. En það hefur eitthvað farið til að mynda í jarðsprengjuleit í gegnum danska verkefnið sem gerir Úkraínumönnum kleift að vera í rauninni vera sjálfum sér nægir eða að minnsta kosti komast nær því með vopn. Og síðan í gegnum hin þessi þjálfunarverkefni,“ segir Kristrún.
„Við erum einfaldlega að svara kalli Úkraínumanna núna varðandi þessa ögurstund í stríðinu að þetta er það sem vantar upp á hjá þeim. En varnarútgjöld heilt yfir NATO-ríkjanna varðandi svona almennar varnir, það er svolítið önnur umræða. Ísland hefur alltaf haft sérstaka stöðu innan NATO,“ segir Kristrún.
Bendir hún á að því hefur alltaf verið sýndur skilningur að Ísland er ekki með her og ekki er gert ráð fyrir að Ísland verði með her.
„Okkar skuldbindingar hafa fyrst og fremst falið í sér að vera með aðstöðu í Keflavík, að gera fólki kleift að taka þátt í að passa upp á flugöryggi á svæðinu, aðgangur kafbáta og þess háttar. Og það verður áfram einhver uppbygging þarna á svæðinu en það er bara miklu stærri og önnur umræða þar sem við erum að tala hérna um í Úkraínu,“ segir Kristrún.