Evrópubúar fá geðhjálp frá Íslandi

Íslenskt smáforrit, eða app sem býður upp á geðrækt og æfingar til að bæta og viðhalda geðheilsu verður aðgengilegt í stórum hluta Evrópu á næstunni. Helga Arnardóttir er hugmyndasmiður og höfundur appsins. Í samstarfi við Landlæknisembættið vinnur Helga nú að endurbótum og þýðingum á appinu með lýðheilsusérfræðingum frá sjö löndum undir merkjum Mentor sem er samevrópskt lýðheilsuverkefni.

Helga er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og segir þar frá því sem liggur að baki og hvert markmiðið til lengri tíma er. Þau lönd sem fá aðgengi að appinu á næstunni eru; Spánn, Ítalía, Úkraínu, Kýpur, Ungverjaland, Rúmenía og Noregur. Sérfræðingar frá þessum löndum munu á næstu þremur árum vinna með embætti Landslæknis og Helgu að þýðingu og þróun appsins. Það er þegar opið notendum á Íslandi þeim að kostnaðarlausu og HappApp, eins og það heitir er einnig aðgengilegt á ensku þannig að það getur þegar nýst fólki víðar í heiminum.

Helga kynnti appið fyrst til leiks árið 2016 og var það hluti af útskriftarverkefni hennar í námi í jákvæðri sálfræði. Verkefnið fékk góðar viðtökur en Helga hafði ekki tök á að fylgja því eftir til að auka enn frekar útbreiðslu. Appið lagðist í dvala  og það var því runninn upp sá tímapunktur að endurgera HappApp eða leggja það niður. Með aðkomu að Landlæknis og Mentor verkefninu var ákveðið að ráðast í endurnýjun og lauk þeirri vinnu seint á síðasta ári, hvað varðar íslensku útgáfuna. Þegar er 1.200 notendur að nýju útgáfunni og Helga er bjartsýn á góðar viðtökur.

Þakklæti er sammannlegt

Þarna munu þjóðir með ólíkar áskoranir geta nýtt sér appið. Helga telur að menningarmunur og ólíkur bakgrunnur þessara þjóða sé ekki hindrun. „Æfingarnar í appinu þær eru svolítið þess eðlis að þetta er sammannlegt. Það eru til dæmis æfingar sem miða að því að rækta með sér þakklæti og ég held að það sé ekki svo mikill menningarmunur þar. Við höfum öll gott af því að fókusa á það góða sem höfum í lífinu og það sem við erum þakklát fyrir. Það svona nærir okkur. Mín kenning er að það mun ekki vera mikill menningarmunur með þessar æfingar, en það verður áhugavert að sjá,“ segir Helga.

Appið byggir að hluta til á endurgjöf frá notendum og telur Helga að það verði spennandi að sjá hvert sú endurgjöf leiðir. Þá er stefnt að notendaprófum til meta hvort og hvernig appið hjálpar þeim sem nota það reglulega.

Hér fylgir með brot úr viðtalinu við Helgu en Dagmál eru opin áskrifendum Morgunblaðsins. Áskrifendur geta horft á þáttinn með því að smella á linkinn hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert