Foreldrar nokkurra nemenda í Breiðholtsskóla krefjast þess að skóla- og frístundaráð grípi til tafarlausra aðgerða vegna stöðu nemenda í 7. bekk í skólanum. Hafa þeir sent yfirlýsingu þess efnis á ráðið.
Eins og Morgunblaðið og mbl.is greindu frá hefur eineltis- og ofbeldisvandi þrifist í árganginum í nokkur ár.
Fjallað hefur verið um hvernig ekki hafi verið brugðist við ákalli foreldra sem fóru fram á að málin yrðu tekin föstum tökum.
Faðir stúlku í árganginum sagði í samtali við blaðið að nánast engin kennsla hefði farið fram í árganginum og að börn væru í svo miklu streituástandi að það væri erfitt fyrir þau að meðtaka upplýsingar.
Fundir voru haldnir í síðustu viku með foreldrum nemenda í 6. og 7. bekk þar sem málið var rætt.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins voru foreldrar beðnir um að leita ekki til fjölmiðla með frásagnir af ofbeldi í skólanum.
Frásagnir sem þó urðu til þess, eftir umfjöllun Morgunblaðsins, að skólayfirvöld vöknuðu að því er virðist til vitundar um vandann og ætli að grípa inn í „af miklum þunga“, eins og fráfarandi formaður skóla- og frístundaráðs orðaði það.
Í yfirlýsingu sem foreldrarnir sendu á ráðið í síðustu viku er þess krafist að börnum í bekknum verði tryggður sálrænn, félagslegur og námslegur stuðningur strax, þar með talið aðgengi að sálfræðingum, námsráðgjöf og sérstökum úrræðum fyrir börn sem hafa orðið fyrir áfalli.
Foreldrarnir segja skort á skýrum svörum eða aðgerðum til að bæta stöðu barnanna og vilja sjá raunhæfa aðgerðaáætlun frá skóla- og frístundaráði.
Þá vilja foreldrar að borgaryfirvöld komi á reglulegri upplýsingagjöf til foreldra þar sem foreldrar hafi ítrekað upplifað skort á gagnsæi og upplýsingagjöf um aðgerðir og viðbrögð.
Telja foreldrarnir að ofbeldismenningin í Breiðholtsskóla hafi varpað ljósi á hvernig kerfið hafi brugðist börnunum. Því fara þau fram á heildstæða endurskoðun á hvernig skólakerfið bregðist við erfiðum aðstæðum og tryggi að réttindi barna séu virt, óháð því hvaða skóla þau sækja.