Heiða Björg Hilmisdóttir, nýkjörinn borgarstjóri og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, er sögð „rúin trausti“ innan sambandsins eftir umrót liðinna daga vegna kjaradeilu við kennara.
Morgunblaðið hefur rætt við bæði stjórnarmenn og sveitarstjórnarmenn, sem segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum við formanninn, en enginn vill á þessu viðkvæma stigi láta hafa neitt eftir sér undir nafni.
Þeir spara þó ekki stóru orðin.
Einn stjórnarmaður segir formanninn hafa rekið „rýting í bak stjórnar“ sambandsins og sveitarstjórna landsins með því að leggja blessun sína yfir að ríkissáttasemjari legði fram innanhússtillögu sína fyrir helgi.
Viðmælendur blaðsins telja víst að Heiða Björg hafi lagt á ráðin um þetta í trássi við einróma vilja stjórnarinnar, en hún segist hvergi hafa komið nærri. Þá nefna sumir aðkomu ríkisstjórnarinnar, en ráðherrar gera einnig lítið úr sínum þætti.
Heiða Björg hefur ekki mætt á stjórnarfundi SÍS síðan á miðvikudag, þegar tillaga ríkissáttasemjara var fyrst kynnt.