„Þegar ég var fimmtán ára gerðu einkenni anorexíu fyrst vart við sig. Á þeim tíma var ég í MR, mikið í íþróttum, félagslynd og stóð mig vel í námi,“ segir Áslaug Kristín Zoega í samtali við mbl.is, 25 ára lífsglöð ung kona sem háð hefur hildina við lystarstol, notið meðferðar í Ástralíu sem kom henni að mjög góðum notum og legið á Landspítalanum sem skildi eftir sig verri minningar en hana fýsir að hugsa út í.
Áslaug, sem nemur nú viðskiptafræði og heimspeki við Háskóla Íslands og kennir auk þess kjarnastyrksæfingakerfið Pilates, féllst á að segja mbl.is sögu sína. Fyrir tæpum tveimur árum, þegar henni var vart hugað líf, var gripið til þess ráðs að veita henni meðferð með hugvíkkandi efnum, einkum psilocybin, sem er virka efnið í ofskynjunarsveppum, en áður hafði Áslaug reynt meðferð með svæfingarlyfinu ketamíni sem heilbrigðiskerfi Ástralíu stóð að.
Áslaug segir erfiðleika hafa tekið að steðja að við upphaf náms hennar við Menntaskólann í Reykjavík, í fyrsta sinn á ævinni hafi hún fundið fyrir félagskvíða og fullkomnunaráráttu eftir að hafa gengið allt að sólu á skólabekk fram að því. Í kjölfarið kom sjúkdómur hennar fram í dagsljósið – anorexía, eða lystarstol. Áslaug varð upptekin af matarvenjum og lagði enn harðar að sér í námi og hreyfingu.
Eftir annan veturinn í MR, þegar hún var á sautjánda ári, flutti fjölskyldan til Sydney þar sem móðir Áslaugar, dr. Helga Zoega, var vísindamaður við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Sydney, en Helga er prófessor í lýðheilsuvísindum og lyfjafaraldsfræði við læknadeild Háskóla Íslands.
Telur Helga það engum vafa undirorpið að meðferð dóttur hennar með notkun hugvíkkandi lyfja samhliða stífri sálfræðimeðferð hafi bjargað lífi hennar. En aftur að frásögn Áslaugar sem dúxaði á stúdentsprófi átján ára gömul í Sydney. Það var þá sem óveðursskýin tóku að hrannast upp við hennar persónulega sjóndeildarhring þótt sólin skini í heiði á Ástralíubúa.
„Þá fer ég að versna mjög hratt og verð alvarlega veik. Eftir þetta tóku við ár þar sem ég var inn og út af sjúkrahúsum,“ rifjar Áslaug upp sem í skugga veikindanna gat ekki gefið sig af fullri atorkusemi að nokkrum sköpuðum hlut. „Ég gat ekki verið í fullu háskólanámi og ekki verið almennilega í vinnu heldur,“ segir hún.
Lýsir Áslaug lífi sínu á þessum tíma sem eins konar hringrás. Hún var þá lögð inn á sjúkrahús í Ástralíu í nokkrar vikur samfellt og naut þar mjög góðrar meðferðar. „Þar fékk ég mikla hjálp og góðan stuðning, en eftir að ég var útskrifuð gat ég ekki viðhaldið árangri. Ég er mjög heppin og gríðarlega þakklát fyrir þá meðferð sem ég fékk í Ástralíu,“ segir viðmælandinn í einlægni, en ástralska heilbrigðiskerfið er að sögn Áslaugar mjög framarlega í heiminum í átröskunarmeðferðum, einkum og sér í lagi hvað lystarstol varðar.
Þér gekk allt í haginn meðan þú naust meðferðar á sjúkrahúsinu, en þér tókst ekki að viðhalda árangrinum eftir útskrift. Segðu mér örlítið af því.
„Í raun var ég ekki í góðum málum á meðan ég var inni,“ svarar Áslaug, „ég var hins vegar undir eftirliti allan sólarhringinn, þarna var séð til þess að ég borðaði sex sinnum á dag og þverfaglegt teymi sat yfir mér, geðlæknir, næringarfræðingur og sálfræðingar. Þetta var svolítið eins og plástur, á meðan ég var þarna inni var ég bara ekki að léttast. Það er engin lækning, þetta er rosalega erfiður sjúkdómur,“ segir Áslaug og lokaorð setningarinnar bera með sér þungan sannfæringarkraft.
„Sjúkdómurinn er mjög misskilinn,“ svarar Áslaug þegar blaðamaður innir hana eftir því hvort anorexíu fylgi sú sannfæring sjúklingsins að hann þurfi sífellt að létta sig. Svo sé alls ekki.
„Anorexía er leið til að bægja frá erfiðum tilfinningum. Þetta snýst ekki um útlitsdýrkun. Ég var ekki að reyna að léttast og ég gerði mér alveg grein fyrir því að ég var í hættulega mikilli undirþyngd. Ég vissi hve alvarlegt þetta var og á hve slæmum stað ég var. Það var bara svo ótrúlega erfitt fyrir mig að þyngjast, viðhalda þyngd og tengslum við umhverfið mitt. Mig langaði ekkert meira en að láta mér batna,“ segir Áslaug af þrautagöngu sinni til margra ára.
Hún lýsir sjúkdómnum þannig að hún verði eins og dofin og þegar henni hafi tekist að byrja að borða á nýjan leik hafi það í raun verið önnur áskorun. „Það er rosalega mikið að takast á við þegar maður byrjar að borða aftur, bataferlið er mjög krefjandi og þótt ég hafi haldið áfram að hitta sálfræðing eftir að ég kom heim [til Íslands] þá náði ég ekki að viðhalda neinum árangri,“ segir Áslaug frá.
Í hverju felst árangurinn?
„Hann felst í að passa upp á næringu og orkujafnvægi til þess að geta tekist á við erfiðar tilfinningar, ná að vera félagslega tengd og virkur þátttakandi í lífinu. Á þessum tíma var ég bara að reyna að lifa daginn af,“ segir Áslaug sem þó þráði fátt heitar en að koma sér inn í lífið á nýjan leik og verða virk í því sem hana langaði að taka sér fyrir hendur.
Hún kom til Íslands haustið 2021 og við það tóku mál hennar nýja stefnu.
„Ég fékk fljótt aðstoð frá átröskunarteyminu á Landspítalanum og er fyrst á dagdeildinni þar. Þar sá fólk fljótt að ég þyrfti mun meiri stuðning svo ég var lögð inn á Klepp. Þarna var bara eitt sjúkrahúspláss til á landinu fyrir einstaklinga með anorexíu. Ég var þar í þrjá mánuði. Þetta var í covid svo ég mátti ekki fá heimsóknir og var alveg einangruð,“ rifjar Áslaug upp og auðheyrt er á raddblænum að henni þykir ekki spennandi að rifja upp vistina á Landspítalanum.
„Þetta var rosalega þungt tímabil.“
„Þarna gerðist líka mjög margt sem hefði alls ekki átt að gerast,“ segir hún, en ber einstaklingum í teyminu sem annaðist hana á Kleppi þó vel söguna, einkum næringarfræðingi sem hún kveður nánast hafa verið henni lífsbjörg á ögurstundu í lífinu, en meðan á dvöl Áslaugar stóð var henni að hluta til gefin næring gegnum slöngu vegna þess hve máttfarið meltingarkerfi hennar var á þeim tíma. Einna þyngst hafi þó legið á henni að foreldrar hennar máttu ekki heimsækja hana vegna reglna í skugga heimsfaraldurs.
„Ég fékk ekki utanumhaldið sem ég hefði þurft á þessum tíma. Við vaktlok fór starfsfólkið bara heim. Ég var á geðendurhæfingardeild þar sem mjög góðir sjúkraliðar störfuðu, en þeir voru bara ekki þjálfaðir til að takast á við tilfelli á borð við mitt,“ segir Áslaug frá.
Í kjölfar útskriftar af Kleppi fékk hún áfallastreituröskun sem rændi hana svefni. „Ég var á betri stað en áður þegar ég var útskrifuð, en ég var mjög langt frá því að vera heilbrigð,“ segir hún frá.
Hún kveðst, frá upphafi veikinda sinna, hafa reynt ferns konar mismunandi SSRI- og SRNI-þunglyndis- og geðdeyfðarlyf, þau fyrrnefndu virka með þeim hætti að hindra endurupptöku boðefnisins serótóníns en þau síðarnefndu hindra endurupptöku hvort tveggja serótóníns og boðefnisins noradrenalíns.
„Þau gerðu mjög lítið fyrir mig. Ég varð mjög dauf og fékk auk þess mikil fráhvarfseinkenni af því síðasta sem ég notaði, Venlafaxin, ég var í fráhvörfum og mikilli lægð í margar vikur og hafði jafnvel sjálfsvígshugleiðingar,“ heldur Áslaug áfram og getur þess að eftir þá reynslu hafi hún hreinlega verið orðin hrædd við lyf af þessu tagi.
„Þegar ég sagði geðlækninum mínum að ég vildi ekki prófa enn eitt lyfið fékk ég bara að heyra að ég væri ósamvinnufús og vildi ekki láta mér batna. Af því að ég vildi ekki taka inn fimmta þunglyndislyfið eftir að þau fyrstu fjögur gerðu ekkert fyrir mig,“ segir Áslaug.
Fljótlega eftir útskrift hennar af Kleppi, vorið 2022, skildu foreldrar hennar erfiðum skilnaði sem bar brátt að. Þá reynslu kveður hún ekki hafa hjálpað.
„Mamma fór þá aftur til Ástralíu og ég ákvað að fara út til hennar. Á þeim tímapunkti ætlaði ég aldrei inn á spítala aftur, ég treysti engum til að hjálpa mér og var með bullandi áfallastreituröskun eftir ákveðin atvik sem áttu sér stað á Kleppi. Ég var rosalega hrædd við að þiggja einhverja aðstoð aftur,“ segir hún frá.
Þarna urðu vatnaskil í lífi Áslaugar og landið tók að rísa eins og sagt er.
„Fyrir hreina heppni var mér bent á sálfræðing í Sydney með sérhæfingu í átröskun sem ég byrja að hitta,“ rifjar Áslaug upp og kveðst í fyrstu hafa verið mjög smeyk. Beygurinn hafi þó rjátlast af henni er frá leið. „Hún hjálpaði mér rosalega mikið og það var hún sem kynnti mig fyrir ketamíni sem er löglegt til notkunar við meðferð af þessu tagi í Ástralíu, við þunglyndi og áfallastreitu,“ segir Áslaug.
Hún hafi því hafið meðferðina. „Og þessu fylgdi mjög djúp sálfræðivinna,“ tekur hún fram strax. „En ketamínið opnaði mér einhverja gátt inn í aðra vídd. Í fyrsta sinn fór ég að finna og geta tekist á við tilfinningar sem ég hafði bælt niður og haldið inni,“ lýsir hún.
Áslaug segir ketamínmeðferðina hafa flýtt mjög fyrir í því bataferli sem svo fylgdi. Hún gekk vikulega til sálfræðingsins ástralska í tvö ár og fékk að heyra að á þeim tíma hefðu þær komist gegnum meðferð og náð árangri sem ellegar hefði hugsanlega tekið tífalt lengri tíma, tvo áratugi.
„Ég varð miklu opnari og tilbúnari til að takast á við sjúkdóminn með erfiðu bataferli,“ segir Áslaug sem í kjölfarið fór að kynna sér rannsóknir á klínískri notkun psilocibyns, öðru nafni 4-fósforíloxý-N,N-dímetíltryptamín (4-PO-DMT), sem meðferð við lystarstoli. Höfðu þær skilað jákvæðum niðurstöðum við Johns Hopkins-háskólann í Baltimore í Bandaríkjunum og King's-háskólann í London auk þess sem þær voru að hefjast við Sydney-háskólann.
„Fyrstu niðurstöður í Bandaríkjunum voru jákvæðar,“ segir Áslaug, en ljón voru þó í vegi hennar. Henni var nauðugur einn kostur að koma líkamanum í það ástand að hægt væri að veita henni meðferð með psilocybin. „Svo þurfti að finna réttu aðilana og stuðninginn til að hjálpa mér að gera þetta og núna hef ég farið þrisvar sinnum í ferðalag með psilocybin með mikilli undirbúningsvinnu, í raun margra ára vinnu sem hófst með sálfræðingnum mínum í Ástralíu,“ segir Áslaug.
Undirbúningsvinna Áslaugar fólst meðal annars í því að setja niður hvað hún vildi fá út úr meðferðinni. Þau takmörk urðu að vera skýr áður en upp var lagt og svo þurfti hún að vinna skipulega með þau með aðstoð sálfræðingsins áðurnefnda.
„Ég tók psilocybin í fyrsta sinn síðasta sumar og árangurinn hefur verið svo magnaður að ég kem því ekki í orð,“ lýsir Áslaug, „ekki bara hvað anorexíuna snertir heldur hvernig ég er sem einstaklingur. Ég finn miklu meiri innri ró, í stað þess að finna til ótta er ég miklu glaðari, sáttari, opnari og heilbrigðari. Ég hefði aldrei trúað á hvaða stað ég er á í dag hefði mér verið sagt það fyrir ári,“ segir Áslaug.
Aðspurð kveður hún meðferðina fara þannig fram að hún drekki psilocybin sem te og ræði svo við sálfræðinginn daginn eftir. Það tímabil sem hún notaði ketamín sem meðferðarúrræði í Ástralíu tók hún það tvisvar í viku yfir nokkurra vikna tímabil, en Áslaug skynjar mikinn mun milli þessara tveggja lyfja og kveður psilocybin hafa reynst sér mun betur.
„Ég hef fengið mun meiri ávinning af psilocybin. Anorexía gerir mann mjög stífan í hugsun, maður býr sér til ákveðinn þægindaramma og vill helst ekkert fara út fyrir hann,“ útskýrir hún. „Sveppirnir virka þannig að þeir opna hugann og gera þig miklu tilbúnari til að takast á við ótta og tilfinningar,“ heldur hún áfram.
Áslaug telur þó mikilvægt að fram komi að notkun ketamíns og psilocybins í hennar tilfelli sé alfarið í meðferðartilgangi og fari fram í algjörlega stýrðu umhverfi, rétt eins og við þær klínísku rannsóknir sem vísindamenn við Johns Hopkins og King's College hafa verið að framkvæma síðustu ár.
„Lífsgæðin sem þessi efni hafa veitt mér er eitthvað sem ég hefði aldrei þorað að vonast eftir fyrir tiltölulega stuttum tíma,“ segir Áslaug og vottar fyrir djúpu þakklæti í rödd hennar. „Þetta hefur verið ólýsanlega erfitt ferli, en ég hef lært svo mikið á sjálfa mig og lífið,“ segir hún og bætir því við að sjúkdómurinn sem henni hefur nú tekist að berja niður sé eitt – breyttur hugsunarháttur annað.
„Nú veit ég hvað skiptir raunverulega máli – heilsan, tengslin og ástin. Hugvíkkandi efnin og samtalsmeðferðin hjálpuðu mér að tengjast þessu á heildrænan hátt og aftur legg ég áherslu á mikilvægi sálfræðimeðferðar samhliða notkun hugvíkkandi efna. Um það snýst mín reynsla,“ segir Áslaug.
Hvað telurðu þá að þurfi að breytast á Íslandi þar sem umræða um hugvíkkandi efni í lækningaskyni er komin mjög skammt á veg?
„Það sem mér finnst að þyrfti að gerast á Íslandi er að opna fyrir þennan heim. Þegar maður talar við geðlækna á Íslandi heyrir maður bara strax „nei, þetta eru eiturlyf, þetta eru partýlyf, þetta er ekki rétta leiðin,“ sem ég skil að einhverju leyti. Þessi efni eru mjög öflug, þú vilt ekki að hver sem er sé að leika sér með þau, enda er það ekki markmiðið, heldur að líta á þetta sem aðstoð við fólk sem glímir við geðsjúkdóma.
Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að íslenskt heilbrigðiskerfi þurfi að byrja alvarlega að skoða þessi lyf sem eitthvað sem við þurfum að nýta á réttan hátt. Þau geta linað svo mikla þjáningu,“ segir Áslaug Kristín Zoega við lok frásagnar af för um dimmasta dal lífs hennar þar sem nú hefur birt til muna.
Ráðstefnan Psychedelics as Medicine verður haldin í Hörpu á fimmtudaginn. Meðal fyrirlesara þar verður dr. David Erritzoe, geðlæknir og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar um hugvíkkandi efni, Centre for Psychedelic Research, við Imperial-háskólann í London, auk þess sem fleiri erlendir sem innlendir gestir munu taka til máls og tveir þeirra ræða við mbl.is er líður á vikuna.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.
Grein The Harvard Gazette um tilraunir með ketamín gegn svæsnu þunglyndi í tilfelli 403 sjúklinga