Nýtt tól notað í hundrað milljarða verkefni

Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis hjá Vegagerðinni, sagði skipta máli á …
Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis hjá Vegagerðinni, sagði skipta máli á hvaða stigi verkefnið var þegar kostnaðaráætlun var gerð og benti á mikilvægi þess að það sé tilgreint í samgönguáætlun. mbl.is/Eyþór

Nú stendur yfir uppbygging sem og prófanir vegna innleiðingar verkefnastýringartóls fyrir Vegagerðina, en tólið verður meðal annars notað við nokkrar af stærstu framkvæmdum sem fram undan eru, en samtals kosta þær vel á þriðja hundrað milljarða. Þarfagreiningu er lokið sem og samningar um kaup á búnaðinum. Reiknað er með innleiðingu í haust.

Bryndís Friðriksdóttir, svæðisstjóri höfuðborgarsvæðis hjá Vegagerðinni, hélt erindi á ráðstefnu Verk­fræðinga­fé­lags Íslands um risa­fram­kvæmd­ir og mik­il­vægi vandaðrar verk­efna­stjórn­sýslu, sem haldin var á Hilt­on Reykja­vík Nordica á fimmtudaginn.

Ræddi Bryndís verkefnastjórnsýslu Vegagerðarinnar, en alls eru 96 verkefni á verkefnaskrá á mismunandi stigum. Vegagerðin er stærsti einstaki framkvæmdaaðili ríkisins. Bryndís fór yfir nokkur af stærri verkefnunum og þau sem hafa verið hvað mest áberandi í þjóðfélagsumræðunni.

250 milljarðar hið minnsta

Ölfusárbrú sem áætlað er að muni kosta 15 milljarða króna, Sæbrautarstokkur mun samkvæmt núverandi kostnaðarmati kosta 25 milljarða, Miklabraut í göng og Fjarðarheiðargöng ætti að kosta 55 milljarða, hvor framkvæmd um sig og Sundabraut, sem áætlað er að muni kosta á milli 100 og 120 milljarða króna.

Lýsti Bryndís skilgreiningu verkefna í fimm áföngum:

  • Áfangi A: Skilgreining á þörf
  • Áfangi B: Frumdrög (fyrsta formlega hönnunarstig)
  • Áfangi C: Forhönnun
  • Áfangi D: Verkhönnun
  • Áfangi E: Framkvæmd (útboðsgögn)

Spurði hún sig hvers vegna aðstæður skapist alltaf sem geri ráð fyrir umræðu um yfirkeyrslu og benti í því sambandi á að það skipti máli á hvaða stigi verkefnið var þegar kostnaðaráætlun var gerð og mikilvægi þess að það sé tilgreint í samgönguáætlun.

2% yfirkeyrsla á kostnaði frá verkhönnun

Bryndís fór þá yfir kostnaðaráætlanir og frávik í framkvæmdarkostnaði á árunum 2019-2023 en þá voru verkefnin innan þeirra 15% vikmarka sem Vegagerðin gefur sér umfram kostnaðaráætlun og að jafnaði var um að ræða 2% yfirkeyrslu frá verkhönnunarstigi á öllu verkefnasafninu.

Sagði hún Vegagerðina hafa tekið til gagngerar endurskoðunar hvernig kostnaðaráætlanir eru gerðar og rýndar. Þar sagði hún að stærsta breytingin væri að skýrsla fylgi með kostnaðaráætlun þar sem verkefninu er lýst og farið í gegnum það hvernig heildarkostnaður byggist upp sem og óvissu og áhættugreiningu þess sem geti breytt einhverju í umfangi kostnaðar. Bryndís sagði skýrsluna lykilatriði og grunninn að breytingarstýringunni þegar verkefni þróist áfram.

Að lokum vakti hún athygli á því að verkefni Vegagerðarinnar hafi langan undirbúningstíma og á löngu undirbúningsferli geti margt breyst í kröfum og útfærslu verkefna sem hafi áhrif á kostnaðaráætlun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert