Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir það hafa verið mjög tilfinningalega þrungna stund er kerti voru lögð við minnisvarða um fallna hermenn á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði í Úkraínu í morgun.
„Ég held að það hljóti allir að hafa gengið í gegnum ákveðinn tilfinningarússíbana að standa þarna. Það er eiginlega ótrúlegt að vera hérna á þessum tíma. Að eftir allt sem að fólk hér hefur gengið í gegnum, þá heldur margt hérna bara áfram. Lífið gengur að hluta til sinn vanagang. Fólk fer hér í vinnu og börn eru hér í skóla,“ segir Kristrún við blaðamann mbl.is í Kænugarði.
Kristrún tók þátt í minningarstundinni ásamt Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, eiginkonu hans Olenu og fleiri þjóðarleiðtogum.
Í kjölfar minningarstundarinnar var ráðstefna þar sem fjöldi þjóðarleiðtoga fluttu ávarp. Í ávarpi sínu greindi Kristrún frá því að Ísland muni auka við framlag sitt til Úkraínu.
Rétt áður en Kristrún flutti ávarp sitt var sýnt beint frá skólastofu í Úkraínu og minntist Kristrún á það.
„Maður hugsar auðvitað til þess sjálfur, þar sem ég er með ung börn og þetta er alveg ótrúlegt. Þetta umhverfi að alast upp í. En ég held að það sýni bara svart á hvítu mikilvægi þess að við stöndum með Úkraínu. Við gerum það sem við getum. Og að við munum líka eftir því að þó að við upplifum okkur örugg og við séum ánægð með okkar velferð á Íslandi, þá er það háð því að það sé friður. Og við höfum gríðarlega hagsmuna að gæta þar að það verði komið á vopnahléi og réttlátum friðarsamningum á forsendum Úkraínu og í Úkraínu. Það er lykilatriði,“ segir Kristrún.