Sama afbrigði E. coli og greindist á Mánagarði

Aðföng ehf., sem flytur vöruna inn, hefur í samráði við …
Aðföng ehf., sem flytur vöruna inn, hefur í samráði við heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík tekið úr sölu og innkallað vöruna að undangenginni tilkynningu frá framleiðanda hennar. Ljósmynd/Matvælastofnun

Matvælastofnun varar við einni framleiðslulotu af frönskum osti, Morbier Tradition Émotion, vegna gruns um E. coli myndandi shiga-toxin smit. Það er sama afbrigði og fannst í smituðu kjöti á leikskólanum Mánagarði í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.

Afbrigði sem veldur mestum veikindum

Shiga-toxin myndandi E. coli (STEC) er það afbrigði E. coli sem veldur mestum veikindum hjá fólki.

Um er að ræða bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur skaðlegum einkennum sýkingarinnar. Sýkingin flokkast til súna, sem eru sýkingar sem geta borist á milli manna og dýra en STEC er hluti af þarmaflóru dýra.

Helsta smitleiðin í menn er með menguðum matvælum og vatni en smit berst sjaldnar beint manna á milli.

45 börn sýktust

Í október á síðasta ári greindust 49 einstaklingar, þar af 45 börn, með staðfesta STEC-sýkingu í hópsýkingu sem kennd hefur verið við leikskólann Mánagarð í Reykjavík.

Smitið var rakið til blandaðs nauta­gripa- og kinda­hakks, en það var niðurstaða rann­sókn­ar stýri­hóps að meðhöndl­un og eld­un hakks­ins hefði ekki verið með full­nægj­andi hætti á leik­skól­an­um. Nokkur barnanna 45 sem veiktust urðu alvarlega veik. Þriggja ára stúlka var ein þeirra og var henni haldið sof­andi í önd­un­ar­vél um tíma.

Í kjölfar þess að foreldrar stúlkunnar stigu fram og kröfðust lögreglurannsóknar tók lögreglan málið fyrir og er það nú til rannsóknar.

Innkalla eina framleiðslulotu

Aðföng ehf., sem flytur vöruna inn, hefur í samráði við heilbrigðiseftirlitið í Reykjavík tekið úr sölu og innkallað vöruna að undangenginni tilkynningu frá framleiðanda hennar, vegna eftirfarandi framleiðslulotu skv. tilkynningu þar um:

  • Vöruheiti: Morbier Tradition Émotion
  • Nettómagn: 100g
  • Umbúðir: Plastumbúðir
  • Strikamerki: 3292790340085
  • Best fyrir dagsetning: 23/02/2025
  • Lotunúmer: 32021A105436
  • Geymsluskilyrði: KÆLIVARA, 0-4°C
  • Framleiðandi og framleiðsluland: Jean Perrin (FR 25 155 001 CE), Frakkland
  • Innflytjandi: Aðföng, Skútuvogi 7-9, 104 reykjavík
  • Dreifing: Verslanir Hagkaups

Neytendur sem keypt hafa vöruna eru beðnir að neyta hennar ekki og farga eða skila í þá verslun þar sem hún var keypt gegn fullri endurgreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert