„Samstaðan er lykilatriði“

Kristrún við komuna til Kænugarðs í morgun.
Kristrún við komuna til Kænugarðs í morgun. Ljósmynd/Friðrik Jónsson

„Hér eru leiðtogar fyrst og fremst komnir til að sýna samstöðu með Úkraínu. Þetta markar þrjú ár frá upphafi stríðsins en það hefur líka gengið mikið á í alþjóðamálum á undanförnum dögum og vikum og það skiptir máli að hingað mæti fólk og sýni að það standi með Úkraínu í þessu stríði,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Kristrún er stödd í Kænugarði ásamt fjölmörgum leiðtogum Evrópuríkja til að sýna landinu stuðning en í dag eru þrjú ár liðin frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu.

Kristrún segir að án efa verði tilfinningaþrungin stund í dag en það reyni á fólk að velta fyrir sér hvernig hlutirnir geti þróast á næstum dögum og vikum og hvort þessi hópur ríkja sem Ísland hafi verið að marka sér með, sem eru Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin, geti gert eitthvað meira til að styðja við Úkraínu.

Úkraína þarf að vera sterk

Hver verða þín helstu áherslumál í samræðum við leiðtoga Evrópu í dag?

„Lykilatriði er auðvitað samstaðan. Við viljum sjá að Evrópa og þessi ríki sem hafa komið saman og stutt við bakið á Úkraínu geri það áfram og haldi því á lofti að það er sannarlega Rússar sem réðust inn í Úkraínu og sterk Úkraína er forsenda fyrir langvarandi friði í álfunni,“ segir Kristrún.

Kristrún Frostaddóttir forsætisráðherra er komin til Kænugarðs ásamt fjölmörgum leiðtogum …
Kristrún Frostaddóttir forsætisráðherra er komin til Kænugarðs ásamt fjölmörgum leiðtogum Evrópu en í dag eru þrjú ár liðin frá innrás Rússa í Úkraínu. Ljósmynd/Friðrik Jónsson

Hún segir að Úkraína þurfi að vera í sterkri stöðu ef það komi að friðarviðræðum og það þurfi að tryggja það öllum mögulegum úrræðum að Úkraína verði sterk.

„Þetta eitt af því sem við ætlum að ræða í dag og hvernig þessi hópur ríkja geti komið að því." 

Teikn á lofti að samið verði um vopnahlé

Ýmis teikn eru á lofti um að samið verði um vopnahlé á milli Úkraínumanna og Rússa á næstu mánuðum. Miðað við þær yfirlýsingar sem komið hafa frá Hvíta húsinu undanfarna daga þykir víst að endanlegt vopnahlé muni að einhverju leyti fela í sér að Rússar haldi því landi sem þeir hafa hertekið í hinni ólöglegu innrás sinni.

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði til dæmis í síðustu viku að hann teldi ólíklegt að aftur yrði snúið til stöðunnar sem var fyrir fyrri innrás Rússa árið 2014, af því að Rússar hefðu „barist mjög hart fyrir þetta land og tapað mörgum hermönnum“.

Rússar hafa raunar gengið skrefinu lengra, því þeir innlimuðu í september 2022 fjögur héruð Úkraínu, Kerson, Sapórísja, Donetsk og Lúhansk, en einungis Lúhansk getur talist að fullu á valdi þeirra. Þá ráða Rússar hvorki yfir héraðshöfuðborgunum í Kerson né í Sapórísja. Þrátt fyrir það krefjast þeir að héruðin öll í heild sinni verði eftirlátin sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert