Starfsfólkið oft úr tengslum við raunveruleikann

Soffía hefur víðtæka reynslu úr skólakerfinu og talar um þöggun …
Soffía hefur víðtæka reynslu úr skólakerfinu og talar um þöggun í kringum ofbeldi barna. mbl.is/Karítas

Soffía Ámundadóttir, kennari til þrjátíu ára, segir ofbeldi meðal barna vera tabú meðal skólayfirvalda og að úrræði skorti.

„Við viljum ekki tala um þetta. Það er vandamál númer eitt,“ segir Soffía.

Starfsfólk sveitarfélaga og kennsluskrifstofa horfist ekki í augu við vandann og veigri sér við að nota orðið ofbeldi þegar börn séu annars vegar, enda sé orðið gildishlaðið.

Valdið tekið frá skólum

Hún segir slíkt starfsfólk oft ekki í tengslum við raunveruleikann sem blasi við kennurum á gólfinu.

„Ég skil ekki að skólaskrifstofur geti bara þaggað hlutina niður. Af því að þar starfar reynslumikið fagfólk sem veit að ef við tökum ekki á þessum vanda, þá heldur hann bara áfram að stækka. Og viljum við það? Nei,“ segir Soffía.

„Fræðin segja okkur það að ef við viljum ekki tala um þetta þá breytist ekki neitt. Þetta viðmót okkar: „Æ, þetta reddast bara“ – það er bara ekkert að fara að gerast. Þetta er þróun sem við erum búin að sjá gerast inni í skólum mjög lengi. Valdið – það er búið að taka það frá skólum,“ bætir hún við.

Kennarar orðnir hræddir og hvekktir

„Afleiðingarnar eru bara allt of litlar og ekki nógu afgerandi. Þess vegna gera þau þetta bara aftur og aftur og aftur, vegna þess að það eru engar afleiðingar. Og kennarar eru orðnir hræddir, þeir eru hvekktir. Þeir eru ekki að grípa inn í og láta örugglega margt fram hjá sér fara, af því að þeir lenda í því að verða kærðir.“

Soffía segir að mennta- og barnamálaráðuneytið og sveitarfélög þurfi að bregðast við. Skortur sé á miðstýrðum verkferlum, skráningu atvika, samvinnu við foreldra og stuðningi frá stjórnendum til kennara. Þá séu langir biðlistar í úrræði og að vandinn verði sífellt meiri áskorun fyrir skólasamfélagið.

Soffía Ámundadóttir hefur kennt í áratugi og starfar nú við …
Soffía Ámundadóttir hefur kennt í áratugi og starfar nú við Háskóla Íslands. Ljósmynd/Háskóli Íslands

Ofbeldið að verða grófara

Soffía hefur víðtæka reynslu úr skólakerfinu og hefur kennt á öllum skólastigum, þar af áratug við Brúarskóla. Þá hefur hún einnig verið starfsmaður á neyðarvistun Stuðla.

Núna starfar hún hjá Háskóla Íslands, annars vegar á menntavísindasviði og hins vegar við endurmenntun HÍ, þar sem hún kennir námskeiðið Ofbeldi og hegðunarvandi nemenda, sem er vel sótt.

Í meistararannsókn Soffíu fjallaði hún einnig um reynslu stjórnenda af nemendum sem beita ofbeldi í skólastarfi í Reykjavík og hvaða verkfæri stjórnendur hafa til að bregðast við.

Soffía segir ofbeldi meðal barna ávallt hafa verið vandamál. Síðustu árin hafi vandinn þó farið stigvaxandi.

„Það er mikil aukning og ofbeldið er að verða grófara.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert