„Það þarf jafnvel tvo kennara í hvern bekk“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eyþór

„Ég vil fyrst og fremst meina að það þurfi fleiri kennara. Það þarf bara fleiri menntaða kennara. Það þarf jafnvel tvo kennara í hvern bekk,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, um skóla án aðgreiningar.

mbl.is ræddi við Ásthildi að loknum ríkisstjórnarfundi á föstudaginn, meðal annars um stefnuna um skóla án aðgreiningar, sem hefur verið til mikillar umræðu upp á síðkastið í kjölfar eineltis- og ofbeldismála barna sem Morgunblaðið og mbl.is hafa greint frá.

„Það þarf að bæta í“

Finnst þér þessi stefna vera að ganga upp miðað við núverandi fyrirkomulag eða þarf að taka skref til baka og endurskoða hlutina?

„Það þarf að bæta í ef þessi stefna á að ganga upp. Þetta var svona ákvörðun sem var tekin og hljómaði rosalega vel, sett inn í skólana og svo má eiginlega segja að allir aðilar, sveitarfélögin og svona, bara bökkuðu og létu þetta í hendurnar á kennurum að bjarga málum.“

Að sögn ráðherrans hafi úrræðum verið lokað og breytingar átt sér stað í hugmyndafræðinni sem hún kallar annars „fallega“.

„Þetta er hugmyndafræði okkar þjóðfélags líka. Við viljum ekki þjóðfélag aðgreiningar. Við viljum ekki aðskilnaðarstefnu. Það á að vera alls kyns flóra í samfélaginu og það er þá líka alls kyns flóra inni í skólunum.“

Hins vegar sé þörf að huga betur að því hvernig eigi að koma til móts við öll börn, þau sem virkilega þurfi á aðstoð að halda, þau sem gangi mjög vel námslega, en einnig þau sem finna sig mitt á milli og þurfa aðstoð á köflum.

Skólar oft neyðst til að ýta vanda á undan sér

Segir Ásthildur að nú sé unnið að þessu og vísar til færsældarverkefnisins sem var innleitt í lög fyrir þremur árum.

„[Það] er verkefni sem er í þróun, en farsældin snýst um að það muni ekkert barn að falla á milli skips og bryggju. Öll börn munu fá þá hjálp sem þau þurfa,“ segir ráðherrann og nefnir einnig að því fylgi snemmtæk íhlutun, sem sagt, að það verði gripið inn í um leið og vanda barns er vart.

„Það hefur ekki verið gert. Skólarnir hafa oft neyðst til að ýta vandanum á undan sér af því það hafa ekki verið nein úrræði. Nú þarf að grípa inn í strax vegna þess að því fyrr sem við grípum inn í því meiri líkur eru á að þessi börn þurfi ekki síðar meir að fara í þyngstu úrræðin okkar.“

Mikilvægt að kennurum sé treyst

Þá segir Ásthildur að frumvarp sem hún lagði fyrir Alþingi fyrir stuttu og snýr að nýju samræmdu námsmati, Matsferillinn, sé hluti af ferlinu þar sem kennarar geta verið með símat og séð strax hvaða börnum gangi illa og í hverju og gripið inn í strax. 

Segir hún þá að mikilvægt sé að kennurum sé treyst þegar þeir svo tjá sig og benda á að barn glími við ákveðinn vanda. Væri þá hægt að fara strax í ákveðin úrræði í staðinn fyrir að bíða í einhver ár eftir að barnið fái greiningu á meðan vandinn eykst.

„Þetta eru hlutirnir sem við þurfum að taka betur á og við erum að vinna í því að búa til þannig umhverfi úr menntamálaráðuneytinu og hjá Miðstöð menntunar- og skólaþjónustu.“

Jafnvel tvo kennara í hvern bekk

Hún segir varðandi skóla án aðgreiningar að fyrst og fremst þurfi fleiri kennara, og þá jafnvel tvo í hvern bekk.

„Ég er ekki að segja að það þyrfti í alla bekki, en að það sé eitthvað sem sé jafnvel gert við bekki sem eru þungir, þar sem mikið er í gangi, þar sem finna má margar greiningar, þar sem eru margir sem ekki tala íslensku o.s.frv.“

Segir að ríkisstjórnin sé stórhuga í menntamálum

Spurð út í kostnað við verkefn til að framkalla betrumbæturnar segir hún að kostnaður gæti verið meiri til að byrja með vegna þess vanda sem sé til staðar og vinna þurfi á.

„En ég held að ef við erum í forvörnum og grípum hratt inn í þá muni kostnaðurinn á endanum minnka af því þá eru færri sem þurfa þessi þungu úrræði.“

Er ríkisstjórnin sammála um að auka þurfi fjármuni inn í skóla án aðgreiningar?

„Við höfum ekki rætt þetta í ríkisstjórninni á nákvæmlega þessum forsendum og rekstur grunnskólanna er í höndum sveitarfélaganna þannig þetta snýr upp á þau. En ríkisstjórnin er bara mjög stórhuga í menntamálum og ætlar sér að fara í stórátak þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert