Heiða Björg Hilmisdóttir er 23. borgarstjóri Reykjavíkur og fimmta konan til að gegna embættinu. Hún er tíundi borgarstjórinn á þessari öld og hefur nú rúmlega 15 mánuði í embættinu fram að næstu kosningum.
Heiða var fyrst kjörin í borgarstjórn árið 2015 og hefur hún því sinnt starfi borgarfulltrúa í heilan áratug. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum innan Samfylkingarinnar á borð við það að hafa verið varaformaður flokksins.
Eftir að Dagur B. Eggertsson hætti í borgarstjórn, til þess að fara inn á þing, tók Heiða Björg við keflinu sem oddviti Samfylkingarinnar í borginni.
Nýr meirihluti var kynntur á föstudaginn og flokkarnir sem mynda þann meirihluta eru Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Flokkur fólksins og Vinstri græn.
Auk þess að vera nú borgarstjóri er hún einnig formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og hefur verið heldur stormasamt hjá henni þar að undanförnu í tengslum við kjaraviðræður kennara.
Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, náði góðri ljósmynd af Heiðu fyrir framan vegg þar sem er búið að lista fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur. Hægt er að sjá myndina efst í fréttinni.
Á myndinni má sjá nöfn á borð við Jón Þorláksson, Bjarna Benediktsson eldri, Gunnar Thoroddsen, Davíð Oddsson, Ingibjörgu Sólrúnu, Dag B. Eggertsson og Einar Þorsteinsson.
Núna styttist væntanlega í það að nafni hennar verði bætt við á vegginn.
Frá árinu 1908, þegar Páll Einarsson varð fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur, til ársins 2003, þegar Ingibjörg Sólrún hætti sem borgarstjóri, voru alls 14 borgarstjórar.
Gróflega reiknað þá þjónaði hver borgarstjóri að meðaltali í hátt í sjö ár á þessu tímabili.
Frá árinu 2003 til ársins 2025 er hins vegar allt aðra sögu að segja. Á aðeins 22 árum hafa verið 10 borgarstjórar og hefur hver borgarstjóri því þjónað í að meðaltali rúmlega tvö ár.
Á þessu tímabili kemur Dagur B. Eggertsson tvisvar við sögu sem borgarstjóri en í seinna skiptið var hann borgarstjóri í tæplega 10 ár.
Helga er því að taka við starfi þar sem flestir hafa ekki enst lengi á undanförnum áratugum og sjálf hefur hún bara um 15 mánuði fram að næstu kosningum.
Þó er ekki útilokað að hún verði borgarstjóri lengur en það, ef sveitarstjórnarkosningarnar eru henni í vil.
Þá er heldur ekki útilokað að hún verði í styttri tíma en 15 mánuði þar sem um er að ræða fimm flokka meirihluti sem hún fer fyrir.