Vél til Finnlands tók snúning og lenti í Eistlandi

Vélinni var flogið í sex hringi yfir Finnlandsflóa meðan flugmenn …
Vélinni var flogið í sex hringi yfir Finnlandsflóa meðan flugmenn biðu eftir því að geta lent í Eistlandi. Skjásot/FlightRadar24

Farþegaflugvél Icelandair á leið til Helsinki í Finnlandi þurfti í dag að breyta um stefnu og lenda frekar í Tallinn í Eistlandi. Slæmt skyggni var í Helsinki og rétti búnaðurinn til þess að lenda í slíkum aðstæðum var ekki virkur í vélinni.

Vélinni var þá flogið í sex hringi yfir Finnlandsflóa meðan flugmenn biðu eftir því að geta lent í Eistlandi, eins og sjá má á FlightRadar24.

„Vélin lenti á varaflugvelli í Tallinn vegna skyggnis,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.

Mikil þoka

„Það er mikil þoka og því miður var búnaður sem er nauðsynlegur þegar skyggnið fer niður fyrir fimmhundruð og fimmtíu metra ekki virkur á þessari vél,“ bætir hann við en vélin er af tegundinni Boeing 737 MAX 8 og nefnist TF-ICN, en er kölluð Mývatn.

Því hafi verið lent í Tallinn samkvæmt verklagi. Vélin er nú lögð af stað til Helsinki að nýju. Guðni kveðst ekki vita hversu margir hafi verið um borð í vélinni.

Guðni segir að búnaðurinn sem var óvirkur þurfi ekki alltaf að vera virkjaður – það skerði ekki flughæfi vélarinnar. „En hann er bara nauðsynlegur þegar skyggnið fer niður fyrir ákveðin mörk,“ ítrekar hann.

„Svo fer vélin bara í viðhald á þessum búnaði nú fljótlega,“ bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert