Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem býður sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins, segir vörumerkið borgarlína að einhverju leyti ónýtt út af því hvernig um það hefur verið fjallað.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við hana á vettvangi Spursmála.
Þar ræðir hún risaframkvæmdina sem hún segir að geti aukið valfrelsi fólks þegar kemur að samgöngumátum. Hins vegar þurfi að fara varlega í uppbyggingunni til þess að það skerði ekki tækifæri þeirra sem vilja áfram nýta einkabílinn til þess að koma sér milli staða.
Spinnst umræðan þá að nokkru um fyrirætlanir sem munu gjörbreyta ásýnd Suðurlandsbrautar og fleiri svæða. Þar mun tilkoma borgarlínunnar skerða aðgengi akandi fólks gríðarlega og stórfækka bílastæðum, raunar svo mjög að fyrirtækjaeigendur á svæðinu telja að ef framkvæmdin verður að veruleika að þá kippi það stoðunum undan rekstrargrundvelli þeirra.
Orðaskiptin um borgarlínuna má sjá í spilaranum hér að ofan en þá eru þau einnig rakin í textanum hér að neðan.
En það eru skiptar skoðanir á stórum málum sem kljúfa flokkinn, ekki bara eftir þessum fylkingum sem þið kannist lítið við eða minna en ég tel efni standa til. Eitt af þeim er borgarlínan. Það hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherrann kvittað undir hvern pappírinn á fætur öðrum. Síhækkandi kostnaður við borgarlínu hér og samgöngusáttmála upp á 311 þúsund milljónir. Hverju svarar þú fólkinu út á landi sem klórar sér í kollinum og veltir fyrir sér vegablæðingunum í Dalasýslu eða ástandinu á vegunum fyrir austan?
„Eðlilega. Samgöngumál eru í miklum ólestri. Og þar þurfum við að þora að horfa til nýrra lausna, aðkomu einkaaðila, mögulega lífeyrissjóða og við verðum bara að viðurkenna það að kerfið sem við höfum haft uppi með viðhald á vegum hefur ekki virkað nægilega vel. En það er líka mikil innviðaskuld í Reykjavík. R-listinn leiddi hér borgina í mörg ár án þess að þiggja það að hér yrðu gerð mislæg gatnamót og farið í mikilvæga samgönguuppbyggingu sem ríkisstjórnin þáverandi talaði fyrir í borginni og...“
En það hefði verið hægt að ráðast í það allt án þess að setja upp borgarlínuna sem er að fara að rústa allri starfsemi við Suðurlandsbraut og þar fram eftir götunum.
„Já, þarna þurfum við að fara varlega í það hvernig hún verður byggð upp og hvernig við bætum almenningssamgöngur í landinu. Við eigum að tala fyrir skýru valfrelsi í samgöngum og það á ekki að bitna á fólki sem vill ferðast um í eigin bíl. Og ég finna að þetta er mál þar sem fólk hefur misjafnar skoðanir og það er bara allt í lagi. Við í Sjálfstæðisflokknum eigum að vera þess megnug að geta tekist á um útfærslu og ákveðna hluti en megum ekki gleyma okkur í því sem mögulega ýtir okkur í sundur, því við eigum miklu meira sameiginlegt. Ég vil styðja...“
Já en hver er þín skoðun, þetta er 311 milljarða verkefni. Ég nefni Suðurlandsbrautina, ég fjallaði um þetta um daginn þar sem á að troða borgarlínunni inn í kerfið og það á að taka bílastæðin öll meira og minna af fyrirtækjunum öllum sem eru við Suðurlandsbraut og einkabíllinn sem hefur núna 2x2 akreinar fær 1x1. Þetta verður allt í klessu og það sjá það allir.
„Já ég hef sagt að ég treysti, og hef treyst Degi B. Eggertssyni illa fyrir að halda utan um þetta mál og fjármögnun þessa verkefnis,“ segir Áslaug.
Og hún bætir við:
„Það eru margir þættir þarna sem þarf að endurskoða og koma til umræðu. Ég held að einhverju leyti að brandið sé ónýtt, hvernig um það hefur verið talað og annað. En ég styð valfrelsi í samgöngum. Og ég styð uppbyggingu almenningssamgangna. Og ég finn það, ég fundaði í fyrra með yfir 100 konum í Danmörku, íslenskum konum, sem ég var að ræða við og eru öflugar í atvinnulífinu þar. Og ég var að velta fyrir mér af hverju þær væru ekki snúnar heim og það sem var efst á baugi hjá þeim það voru fæðingarorlofsmálin, leikskólamálin í borginni en það voru líka samgöngur. Og við þurfum að hlusta á framtíðarkynslóðir á sama tíma og við förum betur með fé, byggjum upp samgöngur sem henta íslensku veðurfari og komist sinnar leiðar betur en það gerir í borginni í dag.“
Talandi um íslenskt veður. Ég held að það sé útrætt mál.
„Strætó? Ég fer nú stundum í strætó.“
Viðtalið við Áslaugu Örnu má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan: