Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, greinir frá því í aðsendri grein í Morgunblaðinu að hún styðji Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur í formannskjöri sem fram fer á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi.
Áslaug Arna og Guðrún Hafsteinsdóttir hafa boðið sig fram til formanns en Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því í byrjun árs en hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í formannskjörinu.
„Áslaug Arna er vinkona mín og samverkakona til margra ára. Eitt mikilvægasta viðfangsefni hennar í gegnum tíðina hefur verið að finna sjálfstæðisstefnunni stað í hverfulum nútíma dagsins í dag. Ég hef dáðst að henni og þeirri einlægu ástríðu sem hún hefur fyrir því verkefni,“ segir Hildur meðal annars í greininni.