Þegar sveitarfélag sendir frá sér póst sem skrifaður er eingöngu á ensku er um lögbrot að ræða.
Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslenskri málfræði og stjórnandi í facebook hópnum Málspjall, í pósti sínum til bæjarstjóra Akureyrar.
Tilefni póstsins var að meðlimur Málspjalls sendi Akureyrarbæ nýlega reikning fyrir smáviðvik og fékk staðfestingu í tölvupósti sem eingöngu var skrifuð á ensku. Það eina sem hafi verið skrifað á íslensku hafi verið nafn viðtakanda og orðið Akureyrarbær.
Í póstinum minnir Eiríkur, sem sjálfur hefur titlað sig málfarslegan aðgerðasinna, á að það varði við lög þegar sveitarfélag eða aðili í umboði þess sendir frá sér póst eingöngu á ensku.
En í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.
Ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.
„Það verður heldur ekki betur séð en þetta sé í hróplegu ósamræmi við málstefnu Akureyrarbæjar sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar 17. september sl,“ segir einnig í pósti Eiríks.
Segir hann einnig í póstinum til bæjarstjóra Akureyrar að komið hafi fram í umræðu á facebook hópnum að bærinn hafi keypt viðkomandi þjónustu af fyrirtæki sem ekki gæti sent út svör á íslensku.
„Ég treysti því að þarna sé um vangá að ræða af hálfu bæjarins, en það er einboðið að krefjast þess að fyrirtækið kippi þessu í lag þegar í stað. Að öðrum kosti hlýtur bærinn að hætta viðskiptum við það til að komast hjá því að halda áfram lögbrotum.
Það er grafalvarlegt mál þegar opinberir aðilar hunsa íslenskuna á þann hátt sem þarna er gert.“
Eiríkur fékk umsvifalaust svar frá bæjarstjóra sem á að hans sögn skilið hrós fyrir snögg viðbrögð.
Í svari bæjarstjóra sagði:
„Ég þakka tölvupóstinn. Við könnum hvað er hér á ferðinni en líkast til er það svo að það þurfi að forrita hugbúnaðinn sem við notum. Það þarf að kanna það hjá þjónustuaðila.
Akureyrarbær leggur sig fram um að vanda notkun á íslensku máli í stjórnsýslu sinni og get ég fullyrt að þetta er ekki venjan hjá okkur.“
Eiríkur segist þá vona að „hópverjar“ fylgi málinu eftir og fylgist með hvort breyting verði þarna á.