Kennarar í Hafnarfirði hafa boðað til kröfugöngu á morgun, miðvikudag, klukkan 15.30.
Gengið verður frá Hafnarfjarðarkirkju á fund bæjarstjórnar, en yfirskrift göngunnar er Útför kennarastarfsins.
Miklar áhyggur eru meðal kennara af framtíð starfsins og því að fagmennska í skólastarfi verði ekki lengur til staðar, sem hefði miklar afleiðingar fyrir samfélagið í heild sinni.
Með göngunni er vonast til að sýna fram á sorg kennara – samanber yfirskrift göngunnar.
„Þess vegna er þema göngunnar að þetta sé útfararganga kennarastarfsins, við vonum að þau geri sér grein fyrir hvað þau eru í rauninni að gera,“ segir Margrét Össurardóttir, stjórnarmaður í Kennarafélagi Reykjaness og trúnaðarmaður í Hvaleyrarskóla, í samtali við mbl.is.
Aðspurð segir Margrét kröfugönguna hafa komið til í kjölfar neitunar Sambands íslenskra sveitarfélaga á miðlunartillögu sáttasemjara.
„Kennarar eru bara rosalega sorgmæddir og þetta er kjörin leið til að sýna hvernig okkur líður. Þetta er bara ávísun á það að það munu kennarar hverfa úr stéttinni og við bara deyjum út.“
Kennarar séu margir hverjir hreinlega að gefast upp, en Margrét segist vita til þess að margir íhugi starfsuppsögn og einhverjir hafi þegar skilað uppsagnarbréfi.
„Nú er allt vaðandi í vetrarfríum og fólk út og suður, þannig að það er ekkert víst fyrr en að dregur að mánaðarmótum – að skólastjórnendur fái uppsagnarbréf.“
Að sögn Margrétar hafa kennarar í gegnum tíðina þurft að vinna tvöfalda og jafnvel þrefalda vinnu til þess að hafa í sig og á.
Nú hafa kennarar á Suðurlandi talað um að hætta að taka að sér forfallakennslu, hefur það komið til tals hjá ykkur?
„Já, það hefur verið í umræðunni hjá okkur hérna í Hafnarfirði líka, en nú erum við í vetrarfríi þannig að ég veit ekki hvað verður á miðvikudaginn þegar við hittumst á starfsmannafundi.
Svo ofbauð okkur svo rosalega að Hafnarfjarðarbær auglýsti starf forfallakennara, hann verður að hafa náð tvítugsaldri og þarf bara að vera með hreint sakavottorð. Hvers eiga börnin að gjalda?“
Margrét hefur að eigin sögn tapað rúmum fjórum milljónum úr lífeyrissjóði frá árinu 2016, „vegna þess að lífeyrisréttindin mín voru skert“.
Hún hafði gert ráð fyrir að hætta að vinna og fara á eftirlaun eftir fimm ár, um 65 ára aldurinn, en spyr sig í dag hvort hún þurfi að vinna til sjötugs til þess að geta haft það þokkalegt á efri árunum.
Bendir hún á að flestir kennarar séu í svipaðri stöðu með sinn lífeyrissjóð.
„Við erum svo aftarlega á merinni í launasetningu að það munar 4-5 hundruð þúsund krónum á okkur og öðrum sérfræðingum á almennum vinnumarkaði, sem erum með sama háskólanám á bakinu,“ segir Margrét.
„Almenni markaðurinn fékk leiðréttingu ári eftir þetta samkomulag en opinberi geirinn hefur ekki fengið leiðréttingu á sínum lífeyrisréttindum. Þar á meðal var talað um að gegn því yrðu launin okkar leiðrétt sem ekki hefur verið gert, þess vegna stöndum við í þessu.“
Laun kennara eru undir meðallaunum á Íslandi og langt undir launum sambærilegra hópa, er því orðið erfiðara að fá menntaða kennara til starfa.
Margrét segir lærðum kennurum gert að vinna með leiðbeinendum sem ekki hafa uppeldislega menntun og lendi þess vegna í því hlutverki að leiðbeina og kenna öðrum kennurum, „við fáum ekki einu sinni borgað fyrir það“.
Mikilvægt er því að gengið verði til samninga við kennara svo afstýra megi óafturkræfum skaða á menntakerfinu.
Því verður gengið fylktu liði frá Hafnarfjarðarkirkju á fund bæjarstjórnar og bæjarfulltrúum þar afhend áskorun frá kennurum í sveitarfélaginu.
Hver er áskorunin?
„Að styðja við kennara og koma fram við okkur af virðingu – ekki á þennan niðurlægjandi hátt sem þau gera. Jafnframt að við höfum áhyggjur af framtíð starfsins. Hverjir eru skammaðir þegar PISA rannsóknir birtast? Það eru kennarar.“
„Við höfum fengið lítið um svör frá okkar fulltrúum í Hafnarfirði, eins og Rósu Guðbjartsdóttur og hennar afstöðu til hækkunarinnar. En á meðan getur hún starfað sem þingmaður og sem formaður bæjarráðs í Hafnarfirði, okkur finnst tvískinnungur í þessu,“ segir Margrét, hún hefði haldið að þingmannastarfið væri 100% vinna.
„Þetta fólk sem er á ofurlaunum, sem er í pólitíkinni, það bara hugsar um rassinn á sjálfu sér. Það er okkar tilfinning,“ segir hún.
„Við viljum fá svör við neitun okkar fulltrúa úr Hafnarfirði. Ég vona að fólk fjölmenni á miðvikudaginn“