Soffía Ámundadóttir, kennari til áratuga sem starfar nú við Háskóla Íslands, segir ofbeldisvanda í íslenska skólakerfinu ekki einskorðast við grunnskólana.
„Þetta er í öllum grunnskólum og niður í leikskóla,“ segir Soffía.
„Ég var á leikskóla þar sem það var brotin hurð eftir barn. Það eru mjög margir leikskólakennarar að koma á námskeið hjá mér í Endurmenntun Háskóla Íslands og það sér á fólki, það er bólgið og marið eftir leikskólabörn,“ bætir hún við.
„Þetta einskorðast ekki við grunnskólann. Líkamlega ofbeldið virðist vera meira á leikskólum og yngstu skólastigunum en svo eftir því sem börn verða eldri þá kemur vanvirðingin inn og andlega ofbeldið, frá unglingadeild og upp í framhaldsskóla.“
Ofbeldi á meðal barna á Íslandi hefur verið mikið til umræðu eftir að Morgunblaðið og mbl.is greindu frá langvarandi ofbeldisvanda í Breiðholtsskóla. Þá var í gær rætt við föður stúlku sem varð fyrir árás tveggja drengja með stíflueyði.
Soffía segir þörf á tækjum til að skima fyrir hegðunarvanda meðal leikskólabarna og að snemmtæk íhlutun hefjist á leikskólastiginu.
„Þegar það byrja einhverjir erfiðleikar þá þurfum við hjálpina strax. Þá þýðir ekki að ferlið stoppi á biðlistum, að börn fái ekki aðstoð sérfræðinga,“ segir Soffía og heldur áfram:
„Grunnskólakennari í dag, hann á að vera hegðunarráðgjafi og sálfræðingur. Það eru bara mjög óraunhæfar kröfur sem við gerum á kennarastéttina.“
„Mér finnst þetta mjög dapurleg þróun. Sem betur fer er það fyrir tilstilli ykkar blaðamanna að þessi mál fá athygli,“ segir Soffía.
„Hinir vilja bara sussa þetta niður. Þetta á bara að fara ofan í skúffu, ekki tala hátt um þetta og vonandi eldist þetta bara af barninu. Þá er bara ekkert að fara að gerast.“
Greint var frá því í gær að foreldrar barna í Breiðholtsskóla hefðu verið beðnir um að ræða ekki við fjölmiðla með frásagnir af ofbeldi.
Frásagnir sem þó urðu til þess, eftir umfjöllun Morgunblaðsins, að skólayfirvöld virðast hafa vaknað til vitundar um vandann og ætla að grípa inn í „af miklum þunga“.
Soffía segir nauðsynlegt að menntayfirvöld í landinu bregðist við en bendir á að sveitarfélögin séu misstór og hafi kannski ekki öll burði til að ráðast í þá vinnu sem sé nauðsynleg til að koma upp vissum verkferlum.
Þess vegna væri skynsamlegast að innleiða miðlægt ferli, sem yrði þá á borði mennta- og barnamálaráðuneytisins.
„Það er alls konar sem hægt er að gera en þetta hefur verið rosalega mikið tabú. Sveitarfélög og kennsluskrifstofur hafa bara ekki viljað horfast í augu við þetta,“ segir Soffía.
„Af því að við eigum ekki að tala um ofbeldi. Nemendur beiti ekki ofbeldi heldur missi þeir stjórn á sér. Þetta er svo gildishlaðið orð. En þetta er fólk sem er ekki á gólfinu. Veit ekki hvernig aðstæður eru og jafnvel kannski fræðimenn sem hafa ekki verið í mörg ár, jafnvel tugi ára, á gólfinu.“
Hún tekur að lokum fram að sér sé annt um þennan nemendahóp og kennarastéttina í heild sinni.
„Við eigum sem samfélag að laga þetta ástand.“